Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hraunið hagar sér ekki eins og í kennslubókum

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
„Þetta gos segir: „Það skiptir engu máli! Ég ætla samt sem áður að búa til helluhraun og apalhraun og klumpahraun og uppbrotið helluhraun og allar þessar tegundir sem við getum nefnt, skeljahraun og ég veit ekki hvað og hvað,““ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í orðastað eldgossins í Fagradalsfjalli. Hann vísar til þess að í gosinu hafi myndast allar tegundir basalthrauns sem til eru á landi, án þess að framleiðni í gosinu hafi breyst að nokkru marki.

Í samtali við Spegilinn segir Þorvaldur að vísindamenn hafi margt lært á eldgosinu, sumt hafi komið á óvart, kenningar hafi einnig verið staðfestar og nýjar spurningar vaknað. 

Skrifstofa Þorvaldar, sem er prófessor í eldfjallafræði og bergfræði, er á annarri hæð í húsi jarðvísindadeildarinnar í Öskju, í Vatnsmýrinni. Til að komast að henni þarf að ganga í gegnum rannsóknarstofu, þar sem úir og grúir af alls kyns sýnum, steinum í pokum og plastboxum eins og fást í Rúmfatalagernum. 

Það fer ekkert á milli mála að Þorvaldur er spenntur yfir eldsumbrotunum enda játar hann því og segir að ekkert sé skemmtilegra en að fá að fylgjast með dyngjugosi. Hann telur að dyngja sé að myndast, þróunin sé í það minnsta í átt að dyngjugosi. 

Þorvaldur segist hafa í velt því fyrir sér í gegnum sitt nám og starfsferil hvernig nákvæmlega dyngjur myndist. „Við sjáum Skjaldbreið, við sjáum Trölladyngju, Þráinsskjöld og aðrar dyngjur og maður hefur alltaf velt fyrir sér, hvernig gerðist þetta akkúrat? Það væri mjög gaman að fá að fylgjast með því.“

Mynd með færslu
 Mynd: Sólveig Thomasdóttir - Aðsend mynd
Gjóska þeyttist yfir áhorfendur þegar kvikustrókavirknin var sem öflugust.

En hvað hafið þið lært á þessu gosi? 

„Alveg ótrúlega mikið,“ segir hann af sannfæringu. 

„Við höfum fengið staðfestingu á ákveðnum kenningum og hugmyndum, eins og með gjóskukornin, þau breyttust með tíma, ytra byrði þeirra varð í raun og veru meira eins og glerjungur þegar kvikustrókavirknin var sem öflugust, en í upphafi var þetta miklu mattara yfirborð og ekki eins vel skilgreint,“ segir Þorvaldur. „Fyrir mörgum árum setti ég fram þá hugmynd að svona glerjað yfirborð á gjóskukornum úr svona gosum, myndaðist vegna þess að heitt gasið streymdi svo hratt í kringum kornin að þau bræddu ytra byrðið. Og það er akkúrat það sem þau gera, þannig að ég fékk staðfestingu á því. Það er eitt af þessu skemmtilega,“ segir Þorvaldur.

„En það sem hefur komið mér mest á óvart í þessu gosi eru eiginlega tveir þættir,“ segir Þorvaldur. 

„Það er ef maður hugsar um framleiðnina í þessu gosi þá hefur hún verið nokkuð jöfn, aðeins breytileiki en ekki stórar breytingar. Samt sjáum við í fyrsta lagi miklar breytingar í hegðun gossins í gígvirkninni. Við byrjuðum með frekar veikum gasbólum sem brustu þegar þær komu upp á yfirborðið og settu slettur hingað og þangað og kannski pínulitlum kvikustrókum. Svo fórum við yfir í stöðuga kvikustrókavirkni um tíma, svo fórum við yfir í meiri púlsavirkni þar sem þetta kom í hrinum og þá fengum við mjög háa og öfluga kvikustróka. Svo núna erum við komin í slettuhrinuna þar sem eru bara slettur út um allar trissur.“ 

Framleiðnin hefur hins vegar ekkert með þessar breytingar að gera, bendir hann á. 

„Heldur það hvernig ástandið er akkúrat efst í gígopinu og hvernig það þróast með tíma sem virðist stjórna öllu í gígopinu. Þannig að þessi hugsanlegi geymir þarna undir, eitthvað svipaður og í Þríhnjúkagígum en lögunin á honum og stærðin á honum og hvernig opin á honum til sitthvorra endanna eru virðist ráða eiginlega öllu um hvernig gosið hagar sér þarna í gígnum,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: landinn - ruv
Úr Þríhnjúkagíg. Ætli kvikukúturinn í Fagradalsfjalli sé svipaður?

Þorvaldur er ekki síður áhugasamur um hegðun hraunsins sem hann segir að sé alveg sama um hvað sé að gerast í gígnum. 

„Það bara skiptir engu máli, ég bara held mínu ferðalagi áfram!“ segir Þorvaldur í orðastað hraunsins, „og svo bara labbar það yfir landslagið.“ 

„Við erum búin að búa til allar tegundir af basalthrauni án þess að breyta framleiðinni í gosinu,“ segir hann. 

 Ert þú hissa á þessu?

„Já, ef þú lest kennslubækur, þá er það fyrsta sem þú sérð að apalhraun þau myndast þegar framleiðnin er há og hraun renna hratt. Helluhraun myndast þegar framleiðnin er lítil og heildarframrás hraunsins er frekar hæg,“ minnir hann á.

„Þetta gos segir: „Það skiptir engu máli! Ég ætla samt sem áður að búa til helluhraun og apalhraun og klumpahraun og uppbrotið helluhraun og allar þessar tegundir sem við getum nefnt, skeljahraun og ég veit ekki hvað og hvað.““

Þorvaldur segir að sér þyki það magnað, en að sama skapi ánægjuefni fyrir sig. „Því ég er búin að ganga með þetta í maganum í ansi mörg ár út frá þeirri vinnu sem ég hef verið að vinna í rannsóknum á hraunum, ekki bara hér á Íslandi heldur líka á Havaí og annars staðar.“ 

Hitinn ræður hraungerð

Hann bendir á að það sem mestu máli skipti um hvers konar hraun myndist sé hitabúskapur flutningskerfisins. „Hvort að flutningskerfið hafi opnar hraunrásir eða lokaðar. Og þetta gos er að sýna okkur allt þetta. Um leið og þú opnar hraunrásina þá tapar hraunið svo miklum hita að þá færðu apalhraun, þessi seigari, stífari hraungerðir. Ef það er lokað flutningskerfi, þá er það líka vel einangrað vegna þess að hraun veita mjög góð einangrun. Það er ekki auðvelt að koma hitanum í gegnum storknað hraun. Þegar þú ert með lokað flutningskerfi, þá kemur bara þunnfljótandi kvika út úr endanum á því og hún bara heldur röltinu áfram yfir landslagið eins og ekkert sé og lengir bara flutningskerfið,“ útskýrir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Emilía Guðgeirs - RÚV

Þorvaldur útskýrir hve mikill munur er á hitatapi í opinni hraunrás og lokaðri. 

„Í lokaðri eru að tapa minna en einni gráðu á kílómetra og í sumum tilvikum 1/10 úr gráðu á kílómetra. Ef þú hugsar að þetta eru ekki langar vegalengdir sem hraunið fer þarna, kannski 2 km, þá er hraunkvikan úr lokaða flutningskerfinu, það er næstum því jafn heit og þegar hún kom upp. 
En ef þú hugsar um opnu hraunrásirnar þar sem þú sérð glóandi hraunið koma niður, þá erum við að tapa á bilinu 100-300 gráðum á kílómetra.“

Það munar miklu, en við höldum samt meira upp á þær því þær eru svo fallegar, leyfir fréttamaður sér að staðhæfa. 

„Já já, og maður líka bara sér þær,“ jánkar Þorvaldur, „en svo sér maður stundum, svo maður haldi heiðri lokaðra hraunrása uppi, þá hefur maður stundum það sem kallað er skylight, op í þær, þá getur maður séð niður í þær og þá getur maður hversu hratt hraunkvikan flæðir um þær. Við sáum eitt svona um daginn upp í Meradölum og þá streymdi hraunið fram í stríðum straumi.“

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RUV
Hraunið tapar miklum hita á leið sinni um opna hraunrás.

En hvaða spurningar hefur eldgosið í Fagradalsfjalli vakið?

„Úff, allt of margar,“ svarar Þorvaldur. 

„Kannski fyrsta spurningin, henni er í raun og veru enn ósvarað og það er mjög mikilvægt að reyna að svara henni, en af hverju kom þetta upp og af hverju kom þetta upp eins og það gerði og með svona lítilli framleiðni? Þetta bara lak út og það er enn að leka út skilurðu.“

Hann útskýrir að hugtakið framleiðni sé mælikvarði á hversu hratt kvikan kemur upp og hversu mikið magn komi upp á tímaeiningu. „Við erum að tala um 5-15 rúmmetra á sekúndu. Svo stökkva menn hæð sína í öllum herklæðum ef það breytist frá 6 og upp í 12 og voða gaman,“ segir hann og þykir greinilega varla ástæða til að kalla það breytingu á framleiðni. 

„Í Grímsvötnum 2011 var framleiðnin þegar mest lét 10 þúsund rúmmetrar á sekúndu,“ minnir hann á. „Í Eyjafjallajökli 2010, þar var framleiðnin nokkur hundruð rúmmetrar á sekúndu og í Holuhrauni 2014-2015 þar fór framleiðnin þegar mest lét upp í 560 rúmmetra á sekúndu.“ 

Þó að gosið í Eyjafjallajökli hafi verið afdrifaríkt fyrir flugfélög, farþega og ferðaþjónustu þá var það afllítið gos. Þorvaldur bendir á að gosið í Holuhrauni hafi verið það líka. 

Afllítið en staðfast gos

„Þetta er enn þá aflminna. Það er ekki þar með sagt að það verði lítið, það bara gerir þetta hægt og rólega, með staðfestu og ýtir sér bara áfram. Ef það heldur áfram í 50 ár með þessa framleiðni sem það er með núna þá verður þetta orðið fjall sem er jafnstórt Skjaldbreið,“ segir Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjallafræði og bergfræði við Háskóla Íslands. 

ragnhildurth's picture
Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV