Hin mannlega Naomi Osaka og kvíði íþróttafólks

Mynd: Wiki Commons / Wiki Commons

Hin mannlega Naomi Osaka og kvíði íþróttafólks

08.06.2021 - 09:51
Áhugafólk um tennis vaknaði upp við vondan draum á mánudaginn fyrir viku þegar Naomi Osaka, ein besta tenniskona heims og ein skærasta stjarna íþróttaheimsins, gaf það út að hún myndi ekki keppa á Roland Garros-mótinu, eða Opna franska meistaramótinu í tennis, sem hófst fyrir rúmri viku í París.

Forsagan er sú að í lok síðasta mánaðar tilkynnti Osaka, sem er í öðru sæti á heimslistanum á eftir hinni áströlsku Ashleigh Barty, að hún myndi ekki gefa kost á viðtölum eftir keppnisleiki sína á Opna franska, en keppendum er skylt að svara spurningum blaðmanna á blaðamannafundum að leikjum loknum. 

Að sparka í liggjandi mann

Osaka sagði ákvörðunina tekna með geðheilsu sína í huga, þar sem hún vilji forðast þá neikvæðni sem fylgi svona blaðamannafundum. Hún sagði að það að láta leikmenn svara spurningum eftir ósigra jafngilti því að sparka í liggjandi mann. Frá 2018 hefði hún glímt við þunglyndi og í ofanálag sé hún ómannblendin, eða introvert eins og hún orðar það. Henni þyki erfttt að tala opinberlega og finni til mikils kvíða áður en hún tali við blaðamenn. 

Áður en við höldum lengra er vert að kynnast þessari frábæru tenniskonu aðeins betur, tenniskonu sem talið er að eigi eftir að taka við keflinu af Serenu Williams og gæti að ferli loknum kallast besta tenniskona allra tíma. Edda Sif Pálsdóttir, íþróttafréttamaður, ræddi við Hádegið um þetta forvitnilega mál og þessa áhugaverðu tennisstjörnu, Naomi Osaka.

„Hún er fædd í Japan og flytur til Bandaríkjanna þegar hún er þriggja ára, og þá byrjar hún að æfa tennis. Serena Williams fer svo að þræðast inn í hennar sögu. Naomi Osaka á systur, Mary, og pabbi þeirra notar Williams-systurnar og pabba þeirra sem fyrirmynd og hann byrjar að þjálfa þessar japönsku systur í tennis,“ segir Edda Sif. 

„Svo gengur þetta upp og niður hjá Naomi Osaka framan af. Hún slær svo endanlega í gegn árið 2018 þegar hún vinnur Serenu Williams á Opna bandaríska mótinu. Þá er hún að verða tuttugu og eins árs.“

„Það gerist við furðulegar aðstæður. Á verðlaunaafhendingunni eru þær báðar grátandi og Osaka segir að þarna hafi byrjað einhvers konar fælni og kvíði gagnvart aðstæðum þar sem hún er í brennidepli,“ segir Edda Sif og bætir því við að Osaka hafi alltaf verið feimin og til baka. Einhverjir hafi haldið að hún væri góð með sig en eftir því sem Osaka opnaði sig meira þá kemur í ljós að hún er kvíðin. 

Á verðlaunaafhendingunni eftir Opna bandaríska meistaramótið 2018 má sjá hvernig Osaka biður áhorfendur afsökunar á því að hafa sigrað Serenu Williams, sem var á heimavelli og flestir áhorfenda héldu með. 

Sektuð um tvær milljónir króna

Naomi Osaka skaut því upp á stjórnhimininn við vægast sagt óþægilegar aðstæður, sérstaklega fyrir unga konu sem hefur glímt við þunglyndi og kvíða. Þegar hún greindi frá því að hún myndi ekki veita viðtöl að loknum leikjum á Opna franska í síðustu viku, sagðist hún búast við sekt fyrir ákvörðun sína og vonaðist til þess að peningarnir renni til góðgerðamála.

Hún hafði rétt fyrir sér, stjórnendur mótsins báðu hana um að endurskoða ákvöðrun sína með litlum árangri. Því var gripið til þess ráðst að sekta hana um 15 þúsund bandaríkjadollara, eða því sem nemur tæplega tveimur milljónum íslenskra króna. En stjórnendur á Opna franska létu ekki þar við sitja og í yfirlýsingu frá mótsstjórninni kom fram að hún hefði sagt Osaka að myndi hún halda áfram að neita að tala við blaðamenn gæti það haft í för með sér alvarlegri afleiðingar, frekari sektir og jafnvel keppnisbann. 

Þá ákvað Osaka einfaldlega að draga sig úr keppni.

 

Sem fyrr segir eru reglurnar nokkuð skýrar. Ef þú ert að keppa á Opna franska einfaldlega verður þú að tala við blaðamenn að leik loknum. Alveg sama hvernig þér líður. Gerði mótsstjórnin mistök með því að refsa Osaka fyrir ákvöðrun sína og hóta henni keppnisbanni? Eða eru reglur bara reglur, ófrávíkjanlegar, sama hvað? Edda Sif segist skilja stjórnendur mótsins að einhverju leyti.

„Þú vilt fá viðtöl við stærstu stjörnurnar og það er það sem gerir þessi mót svona stór. Við viljum heyra í stærstu stjörnunum eftir leiki. En svo skilur maður hana líka, þetta eru óþægilegar aðstæður,“ segir hann. Mótsstjórnin hefur svo dregið aðeins í land, „lesið salinn“, eins og Edda Sif orðar það.

„Nú stendur til að mótsstjórnir ætli betur að meta aðstæður. Þetta er eitthvað sem þau verða að taka með í spilið. Það er ekki sanngjarnt að þér sé refsað eins og þú hafir gert eitthvað stórkostlegt af þér ef þú vilt ekki fara í viðtöl.“

epa09020265 Serena Williams of the United States hugs Naomi Osaka of Japan after losing the Women's singles semifinals match on Day 11 of the Australian Open Grand Slam tennis tournament at Melbourne Park in Melbourne, Australia, 18 February 2021.  EPA-EFE/DAVE HUNT AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA
Naomi Osaka ásamt hetju sinni og fyrirmynd, Serenu Williams.

Gilda aðrar reglur um íþróttafólk?

Undafarin ár hefur nokkur vitundarvakning átt sér stað um andlega líðan íþróttafólks. Þetta er jú sú stétt fólks sem mjög auðvelt er að gagnrýna, bæði í fjölmiðlum og meðal almennings. Gilda aðrar reglur um íþróttafólk? Gilda aðrar reglur um það hvernig við tölum um íþróttafólk?

„Já, þetta er skrítinn raunveruleiki, að fara inn í vinnudaginn og vita að ef þú gerir ein mistök, alveg sama hvað þú gerðir restina af deginum, þá erum við að fara að tala um þessi einu mistök,“ segir Edda Sif. „Það er ójafnvægi innbyggt inn í þetta kerfi. Þú ert að tapa eða vinna og svo þarftu að horfast í augu við það eftir leikinn og ræða það. Sumum finnst það auðvelt og öðrum finnst það óþægilegt.“

Umræðan um andlega heilsu íþróttamanna er ekki ný af nálinni, og dæmin sýna svart á hvítu að margir íþróttamenn höndla illa það andlega álag sem fylgir því að verða stöðugt í sviðsljósinu og liggja stöðugt undir gagnrýni. En betur má ef duga skal og það er eitthvað sem besta tenniskona heims er nú að vekja athygli á. 

„Þetta er svo nauðsynleg og eðlileg umræða að taka. Breska pressan hefur til dæmis alltaf verið óvægin gagnvart fótboltamönnum. Það er öðrvísi en hér heima þar sem er meiri nánd. En þetta setur klárlega fordæmi. Maður hefur ekki oft heyrt um að einhver sé ekki í hóp eða ætli ekki að keppa út af því að viðkomandi er í kvíðakasti, en við heyrum oft um slitnar hásinar.“

„Að vera sá sem segir þetta í dag, í þessum harða íþróttaheimi, er alls ekki auðvelt. Hún er hæst launaða íþróttakona í heimi, hún getur nú alveg sagt þetta og er samt stjarnan sem hún er, og er enn meiri stjarna fyrir vikið.“

Íþróttafólk er mannlegt

Við göngum út frá því að íþróttafólk sé ekki mannlegt, heldur ofurmannlegt. Það hafi ekki veikleika og sýni það á sér viðkvæmar hliðar sé það til marks um að viðkomandi sé ekki sterkur eða sterk og sé þannig verr í stakk búinn eða búin til að takast á við andstæðinga sína. 

„Akkúrat. Við höfum heyrt þetta líka varðandi vandamál sem eru ekki líkamlegs eðlis. Við höfum heyrt um íþróttamenn sem glíma við fíkn og íþróttamenn sem koma út úr skápnum. Við vitum að það er alls konar fólk í íþróttum.“

Í gær birti Osaka skilaboð á samfélagsmiðlinum Instagram þar sem hún þakkar stuðningsmönnum sínum fyrir allar góðu kveðjurnar sem hún hefur fengið síðan hún dró sig úr keppni á Opna franska meistaramótinu. Þetta er í fyrsta skipti sem hún tjáir sig opinberlega síðan hún tók þessa ákvörðun.

„Ég hef ekki verið mikið í símanum síðustu daga en vildi bara segja að ég kann að meta góðu kveðjurnar,“ sagði Osaka. Enn er ekkert vitað um það hvenær þessi frábæra tenniskona gæti snúið aftur á tennisvöllinn, en á mánudag greindi hún frá því að hún ætlaði að taka sér pásu. 

Það verður forvitnilegt að fylgjast með því hver framvindan verður. Naomi Osaka er allavega ekki með á einu af fjórum risamótunum í tennis og óvíst hvenær hún snýr aftur á völlinn.

Kannski verður sú athygli sem hún hefur nú vakið á andlegri heilsu íþróttafólks til þess að við sem fjöllum um þau, tökum frekara tillit til þess að þegar öllu er á botninn hvolft, eru þau bara manneskjur eins og ég og þú kæri lesandi; sem líður illa, eru kvíðin, og hafa kannski bara akkúrat engan áhuga á að ræða það sérstaklega, og það opinberlega, hvers vegna þau voru svona léleg í íþróttum í dag.