Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hætt við opna bólusetningadaga í júní

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Fallið hefur verið frá áformum um opna bólusetningardaga í júní. Þeir sem vilja ekki bólusetningu með því efni sem þeir hafa verið boðaðir í, gætu þurft að bíða fram í ágúst eftir bólusetningu.

Langar raðir mynduðust við Laugardalshöll í dag þegar bólusett var við kórónuveirunni með bóluefni frá Pfizer. Alls hafa nú 66% fólks á bólusetningaraldri fengið að minnsta kosti fyrri sprautu eða veiruna. Enginn greindist með veiruna í gær, annan daginn í röð. 

Á morgun verður bólusett með AstraZeneca og verður það einungis seinni bólusetning. Á fimmtudag hefur stór hópur verið boðaður í bólusetningu með Janssen. Samkvæmt upplýsingum frá Distica hefur nú verið staðfest að stór sending berst seinni partinn á morgun af Janssen-efninu. 

„Við verðum með fullan dag af Janssen á fimmtudaginn,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Þá verða tíu til tólf þúsund bólusett. Þó er gert ráð fyrir að fleiri skammtar en það berist á morgun en þeir verða látnir bíða fram í næstu viku. Distica dreifir Janssen-skömmtunum til heilsugæslunnar annað kvöld og starfsmenn hennar hefja undirbúning bólusetningarinnar morguninn eftir.

Þið þurfið ekkert að vinna nóttina?

„Nei. Hálf sjö, sjö, þá er ræst,“ segir Sigríður.

Um þrjátíu og sjö þúsund manns á landinu öllu fá bólusetningu í þessari viku.

„Svo höldum áfram í næstu viku og verðum með þrjá bólusetningadaga næstu tvær vikur að minnsta kosti. Þá vonumst við til að geta klárað svo þessar stóru bólusetningar um miðjan júlí,“ segir Sigríður.

Ætlið þið bara að loka sjoppunni um miðjan júlí og fara öll í sumarfrí?

Nei, það er ekki svo gott. En við ætlum aðeins að núllstilla okkur og átta okkur á hvaða verkefni eru eftir,“ segir Sigríður. 

Gert er ráð fyrir að í byrjun júlí verði á landsvísu búið að gefa öllum sem á að bólusetja eina sprautu hið minnsta. Sóttvarnalæknir hafði talað um að um miðjan júní ætti að bjóða upp á opna bólusetningardaga þannig að fólk gæti fengið bólusetningu með öðru efni en það var upphaflega boðað í. En nú hefur þetta breyst. 

„Við erum búin að taka innan úr öllum hópunum. Allir þeir sem voru eftir sem af einhverjum ástæðum höfðu ekki komist í bólusetningar, þannig að við erum búin að boða það fólk með. Svo að við verðum ekki með þessa opnu daga. Þannig að þeir sem ekki komast núna eða velja að bíða eftir öðru bóluefni, þeir þurfa að bíða fram á haust,“ segir Sigríður.

Núna er náttúrulega í sumum löndum Janssen ekki notað fyrir konur yngri en 55 ára en er það samt óhætt hér?

„Þetta er bara mat á öllum þessum stóru rannsóknum, þessum fjölþjóðlegu rannsóknum. Þetta eru línur og leiðbeiningar frá sóttvarnalækni og ég er alveg róleg með það,“ segir Sigríður.