Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bólusetningar þykja ganga fullhægt á Grænlandi

Inatsisartut, Grænlenska landsþingið, Grænlensk stjórnmál, Inatsisartut
 Mynd: KNR grænlenska ríkissjónvarpi
Fulltrúar þriggja grænlenskra stjórnmálaflokka gagnrýna hægagang í bólusetningum í landinu. Sömuleiðis vilja þeir að landsmenn hafi um fleiri bóluefni að velja en nú standa þeim aðeins efni Pfizer og Moderna til boða.

Um 15% Grænlendinga eru nú bólusettir sem stjórnarandstöðuflokkarnir Siumut og Demókratar segja allt of lítið. Atassut sem styður ríkisstjórnina tekur undir þá gagnrýni.

Kirsten L. Fencker heilbrigðisráðherra segist gjarna vilja að hraðar gangi en segir að ekki standi til á næstunni að bæta við bóluefnum. Ástæðan sé einkum aukaverkanir af AztraZeneca og Janssen sem erfitt kunni að vera að glíma við á Grænlandi.

Hins vegar hafi þess verið farið á leit að Bandaríkin létu bóluefni af hendi. Það var gert þegar Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsótti Grænland fyrir skemmstu.

Heilbrigðisráðherrann bendir á að Grænlendingar séu í harðri samkeppni við önnur ríki um bóluefni. Búist er við að búið verði að bóluesetja alla Grænlendingar í byrjun september.