Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

AGS segir Ísland standa vel að vígi í efnahagsbatanum

08.06.2021 - 21:58
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Peningar
Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn segir að Ísland standi vel að vígi í efnahagslegum bata eftir Kórónuveirukreppuna. Eftir sem áður hafi áhrif hans verið gífurleg hér á landi. Hrun í ferðaþjónustu vegi þar þyngst. Samdráttur í landsframleiðslu og aukið atvinnuleysi hafi haft mikil áhrif á efnahagslíf landsins.

Sjóðurinn gaf í dag út úttekt á efnahagsstöðu landsins. Í byrjun júní fór fram árleg umræða um stöðu og horfur í íslenskum efnahagsmálum í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), en sérfræðingar á hans vegum gera úttekt á efnahagslífi aðildarlanda á eins til tveggja ára fresti.

Þar kemur fram að efnahagslíf hér á landi hafi staðið styrkjum fótum í upphafi faraldursins. Opinberar skuldir hafi minnkað frá efnahagshruninu árið 2008 og skuldastaða hins opinbera og almennings hafi batnað til muna. Þá hafi staða bankanna verið sterk þegar faraldurinn skall á. 

Faraldurinn setti sitt strik í þjóðarbúskapinn hér á landi. Helst er nefnt í því samhengi mikill samdráttur í ferðaþjónstu og iðnaði. Landsframleiðsla drógst saman um 6,6 prósent og atvinnuleysi jókst til muna. Búist er við efnahagsbata á árinu 2021 og landsframleiðsla ætti að vera á pari við það sem hún var árið 2019 samkvæmt úttektinni. Þar hefur góður gangur í bólusetningum og fáum smitum hér á landi mest vægi. 

Sérfræðingar AGS mæltu með því við stjórnvöld að festa í sessi örugga og sjálfbæra ferðaþjónustu, efli nýsköpun, skapi störf og einfaldi regluverk og stuðli að auknu jafnvægi á milli launa og framleiðni. Þá er lögð áhersla á að tryggja í tæka tíð markmið landsins í loftslagsmálum.