83 ára og gerir upp bifhjól líkt og á færibandi

Mynd: Steingrímur Dúi / Mótorhjólasafn Íslands

83 ára og gerir upp bifhjól líkt og á færibandi

08.06.2021 - 09:25

Höfundar

Hilmar Lúthersson, stofnfélagi í Sniglunum, er 83 ára og enn að. „Það er varla til sá mótorhjólamaður eða -kona sem ekki þekkir hann,“ segir Njáll Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður samtakanna, en þau sem ekki þekkja til Hilmars fá tækifæri til að kynnast honum og verkstæði hans þar sem hann gerir upp gömul bifhjól í nýjum viðtalsþætti.

Mótorhjólasafn Íslands á Akureyri fagnaði á dögunum 10 ára afmæli. Í tilefni tímamótanna var opnuð sýning um Hilmar Lúthersson, sem er einnig þekktur sem Snigill nr. 1 og hefur í áranna rás gert upp fjölmörg gömul bifhjól. Á sýningunni má sjá nokkur þeirra auk annarra bifhjólatengdra muna úr safni Hilmars. 

Steingrímur Dúi Másson kvikmyndagerðarmaður og Njáll Gunnlaugsson fyrrverandi formaður Sniglanna, Bifhjólasamtaka lýðveldisins, og bifhjólakennari ákváðu að festa sögu Hilmars á filmu fyrir sýninguna. „Við köllum þetta míní-heimild,“ segir Steingrímur Dúi í samtali við Síðdegisútvarp Rásar 2. „Okkur tókst að fá karlinn í viðtal en hann hefur verið tregur við að láta taka viðtöl við sig.“

Hilmar er á níræðisaldri og er enn að, fer á rúntinn á hjólinu sínu og á bifhjólasýningar úti í heimi. „Ég fór á mótorhjólasýningu í hittifyrra í Englandi með honum og hann varð helmingi léttari í sporinu þegar hann steig inn fyrir dyrnar,“ segir Njáll.

Hilmar slær heldur ekki slöku við á verkstæðinu sínu þar sem hann hefur gert upp margan dýrgripinn. „Þetta er eins og færiband. Nú síðast var hann með 47 árgerð af Matchless-bifhjóli. Hann fékk það hjól í ágúst og það er tilbúið í dag. Þá byrjar leitin að næsta hjóli. Það er ekkert auðvelt að grafa þetta upp úr kössum í geymslum.“ Njáll segir að Hilmar hafi gert upp tugi bifhjóla, sum hver í afar misjöfnu ásigkomulagi.

Heimildarþátt Steingríms Dúa Mássonar og Njáls Gunnlaugssonar má sjá hér:

Mynd: Steingrímur Dúi / Mótorhjólasafn Íslands

Tengdar fréttir

Norðurland

Endurheimtu mótorhjól undan stiga eftir 50 ára bið