Undarlegt að hleypa 16 ára strák um borð í varðskip

Mynd: Jón Páll / Aðsend

Undarlegt að hleypa 16 ára strák um borð í varðskip

07.06.2021 - 15:14

Höfundar

„Ég var óskaplega sjóveikur og hálf rænulaus fyrstu dagana af sjóveiki. Þetta var erfitt starf og ég ætlaði nú aldrei í annan túr, mér leið svo illa," segir Halldór Benóný Nellet sem fór þó í annan túr. Alls urðu árin á sjónum 48 þar sem hann barðist við Breta í þorskastríðinu og bjargaði flóttamönnum í Miðjarðarhafi.

Halldór Benóný er í hópi reynslumestu skipherra landsins en hann hóf störf hjá Landhelgisgæslunni 16 ára og lauk störfum þar 48 árum síðar. Um áramótin fékk Halldór Fálkaorðuna fyrir störf sín en sjálfur segist hann líta svo á að orðan sé jafn mikið ætluð samstarfsfólki hans og honum sjálfum. 

Eins og svo margir ungir drengir í Reykjavík var Halldór sendur í sveit. Hann var þá átta ára. Sveitalífið átti ákaflega vel við hann og honum líkaði svo vel að hann fékk líka veturdvöl í sveitinni og fór í skóla þar. Lífið í sveitinni varð til þess að Halldór vildi gerast bóndi. Hann var kominn með skólaleiða og segist aldrei hafa vitað um starf sem hann hafði áhuga á. Leiðin átti því að liggja í Bændaskólann. 

Þegar Halldór var sextán ára bauðst honum starf á varðskipi í gegnum mág mömmu sinnar. Halldóri fannst kjörið að ná sér í smá skotsilfur með að taka einn túr á varðskipinu Ægi og fara svo í Bændaskólann. Þarna var þorskastríðið í fullum gangi og þegar Halldór hugsar til baka finnst honum nokkuð sérstakt að þetta hafi gengið upp. „Manni finnst það undarlegt í dag að hleypa 16 ára strákgutta um borð í varðskip í upphafi þorskastríðsins. Ég er ekki alveg að skilja að það hafi verið leyft.” Hann óttaðist þó ekki um líf sitt en viðurkennir að þetta hafi ekki verið hættulaust starf. 

Fyrst um sinn starfaði Halldór á varðskipinu Ægi. Hann var langyngstur um borð og lenti með áhöfn sem gekk undir nafninu járnkarlarnir. Hann segir áhöfnina hafa tekið sér ágætlega en fyrstu þrjá mánuðina vann hann við uppvask í eldhúsinu þar sem hann barðist við stanslausa sjóveiki. „Ég var óskaplega sjóveikur og hálfrænulaus fyrstu dagana af sjóveiki. Þetta var erfitt starf og ég ætlaði nú aldrei í annan túr, mér leið svo illa. Ég hélt engu niðri og ældi öllu. Hljóp fram á klósett og síðan í uppvaskið og aftur inn á klósett. Þannig liðu dagarnir. Ég veit ekki hvernig ég lifði þetta af ef ég segi alveg satt frá,” segir hann.

Þegar fyrsti túrinn kláraðist rjátlaðist af honum og hann bauð sig fram í annan túr, af einskærri þrjósku, að eigin sögn. Þá var honum hleypt upp á dekk á skipinu og sjóveikin lagaðist mikið. „Ég held að þú getir ekki byrjað á verri stað ef þú ert sjóveikur heldur en í eldhúsi. Innilokaður í matarlykt og sjá ekki út.” Honum er minnisstætt úr fyrstu ferðinni að í hvert sinn sem hann var sendur upp í brú leið honum betur. „Það endaði alltaf með því að brytinn, hann Haukur heitinn, þurfti að hringja í mig og kalla mig niður. Segja mér að minn staður væri í eldhúsinu,” segir Halldór.

Þorskastríðið var í fullum gangi þegar Halldór fór á sjó og varðskipið Ægir oft í eldlínunni. Hann fór því ekki varhluta af öllum hasarnum sem því fylgdi. „Eilífar klippingar, árekstrar og annað. Þetta voru spennandi tímar. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tímann verið hræddur. Maður treysti náttúrulega þessum mönnum,” segir hann. 

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend
Halldór með klippurnar

Eldgosið í Heimaey

Hjá Landhelgisgæslunni var spennan ekki bara fólgin í að berjast við Breta á miðunum. Á sínu fyrsta ári var Halldór nýkominn í land þegar síminn heima hjá honum hringdi um miðja nótt. Móðir hans svaraði og í símanum var varðmaður frá Landhelgisgæslunni sem sagði að Halldór þyrfti að mæta strax um borð en vildi ekkert segja um ástæðuna. Það var ekki fyrr en Halldór var mættur að hann fékk að vita að það væri farið að gjósa í Heimaey og varðskipið var notað við flutninga næstu vikurnar og hlé var gert í þorskastríðinu á meðan. „Ógleymanlegir tímar þegar við lágum þarna á nóttunni og maður horfði bara á gosið. Lágum þarna rétt við hraunjaðarinn,” segir hann. 

Á meðan þorskastríðið var í gangi varð Halldór margoft vitni að því að skotum var hleypt af í varðskipunum, þó að hann hafi sjálfur aldrei tekið í gikkinn. Hann man eftir eftir tveimur tilvikum að skotið var á bresk skip. Annars vegar þegar hann var um borð í Ægi sem skaut á Everton árið 1973 og þegar Þór skaut á Loydsman tveimur árum síðar. 

Eftir nokkur ár á sjónum útskrifaðist Halldór úr Stýrimannaskólanum og á meðan að hann beið eftir að stýrimannapláss losnaði hjá Landhelgisgæslunni starfaði hann á flutningaskipi hjá Eimskipi í þrjú ár og sigldi um öll heimsins höf. 

Nöturlegt í Grimsby

Frá þeim árum er honum sérstaklega minnissætt að hafa dvalið í Grimsby. „Þorskastríðið fór alveg svakalega illa með Bretana. Það var alveg nöturlegt þegar ég gekk um fiskidokkurnar í Grimsby, '79-'80 þegar ég var að sigla þarna. Mér er það minnisstætt hvað það var ömurlegt ástand þarna. Við vorum búnir að hafa af þeim vinnuna og flestallir á bótum. Bærinn var allur í niðurníðslu. Ég þekkti marga togara sem lágu þarna í höfninni og voru að ryðga niður. Þetta var ömurlegt ástand,” segir Halldór.

Hann lærði fljótt að hafa ekki orð á því að hann væri Íslendingur þegar hann fór á pöbbarölt á kvöldin. Hann missti það einu sinni út úr sér og þá átti að berja hópinn. En Íslendingar voru afar óvinsælir í Grimsby eftir þorskastríðið. 

Skúta full af fíkniefnum

Eftir að þorskastríðinu lauk tóku önnur mál við og Landhelgisgæslan hjálpaði þá einnig við að stöðva fíkniefnasmygl. Halldóri er minnisstætt þegar að árvökull togaraskiptstjóri fyrir austan sá skútu út um gluggann og fannst það hálfundarlegt, því það var ekki svokallaður skútutími. Hann hringdi á lögregluna sem hafði samband við Landhelgisgæsluna. Stefna skútunnar benti til þess að hún væri á leið á Djúpavog og þaðan sigldi einmitt gúmmibátur til móts við skútuna og hitti á hana úti fyrir Papey. Lögreglan náði smyglinu en skútan sneri við og hélt út á haf. Hófst þá mikill eltingarleikur við að reyna að finna skútuna og ná henni. Ekkert varðskip var fyrir austan og Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar var því send af stað að leita að skútunni og Týr, sem var út á Sandgerði, var sendur af stað austur á fullri ferð.

„Fokker-vélin fann síðan skútuna þá var hún komin yfir lögsögumörkin Færeyjamegin, þá varð þetta allt miklu erfiðara. Það þurfti að vinna þetta hratt. Týr var langt á undan, keyrði báðar vélar alveg í botn til að ná skútunni. Við þurfum helst að ná henni áður en hún kæmi inn í landhelgi Færeyja, þá hefði þetta allt orðið miklu erfiðara. Það kom í minn hlut að tala við lögreglustjórann og yfirvöld í Færeyjum að fá heimild til að handtaka skútuna í færeyskri lögsögu. Þetta hafðist, ég man ekki hvað var langt í 12 mílurnar þegar við náðum að fara um borð og handtaka. Okkur tókst að færa þá til hafnar og þeir fengu sinn dóm þessir menn. Vonandi náðum við að bjarga einhverjum ungmennum frá þessum fíkniefnum sem þarna voru,” segir Halldór. 

Annað frægt skútumál varð nokkrum árum síðar þegar yfirvöld höfðu vitneskju um skútu við Færeyjar sem var á leið til Íslands. Ómögulegt var að vita hvert skútan stefndi nákvæmlega. Halldór segir að nær ómögulegt hefði verið fyrir skip Landhelgisgæslunnar að finna skútuna út á hafi, það væri eins og að leita að nál í heystakki. Hann vissi hins vegar af danskri freygátu við Færeyjar og þekkti skipherrann persónulega. Halldór hringdi í danska skipherrann og spurði hvort danska freygátan gæti fylgt skútunni eftir.

„Hann varð hissa á þessu samtali og á þessari beiðni, sagðist ekki vera alveg á leið til Íslands, hann ætti að vera áfram við Færeyjar og bað mig um að bíða, hann þyrfti að tala við sína yfirmenn. Eftir smástund hafði ég aftur samband við hann og hann bað mig um að hringja til Kaupmannahafnar og útlista þetta betur fyrir sínum yfirmanni,” segir Halldór sem hringdi til Kaupmannahafnar og útskýrði að þarna væri skúta full af fíkniefnum á leið til landsins. Nokkrum mínútum síðar fékk danska freygátan leyfi til að sigla á eftir skútunni, en samtals tók allt ferlið um hálftíma. „Sem sagt á hálftíma, út af persónulegum kynnum, tókst okkur að fá erlent herskip til að fylgja skútu frá Færeyjum til Íslands. Þetta tókst fullkomlega. Hann elti skútuna yfir hafið án þess að þeir yrðu þeirra varir og síðan var lögreglan tilbúin að taka á móti þeim þegar þeir komu í land við Fáskrúðsfjörð,” segir hann og bendir á að þrátt fyrir ágæti fjarfunda sé ekkert sem kemur í stað persónulegra kynna við fólk. 

Fólksbjörgun í Miðjarðarhafi

Á síðustu árum hefur Halldór tekið nokkrar vaktir í Miðjarðarhafi við eftirlit. Fyrst um sinn var hann í stjórnstöðinni í Madrid og fór síðan sem skipherra, bæði á Ægi og Tý, að bjarga og fylgjast með flóttamannastraumnum. Hann hafi komið að björgun yfir þúsund manns á þessu svæði. „Ansi átakanlegt að sjá allt þetta fólk þarna. Þetta er fólk sem er að leita að betra lífsviðurværi, skelfilegt ástand bara sem er mikið vandamál,” segir Halldór sem finnst erfitt að rifja upp árin á Miðjarðarhafi. „Þetta er alveg skelfilegt að verða vitni að þessu og sjá þetta fólk. Held að fólk á Íslandi viti ekki almennilega hvað við höfum það gott,” segir hann.

Nánar var rætt við Halldór í þættinum Sunnudagssögur á Rás 2. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV

Tengdar fréttir

Innlent

Fjórtán sæmd hinni íslensku fálkaorðu

Innlent

Óvenju mörgum konum og börnum bjargað