Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Þorgerður Katrín: Ísland verði þjóð meðal þjóða

Mynd: RÚV / RÚV
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir það verkefni komandi kjörtímabils að ná tökum á skuldastöðu ríkissjóðs. Til þess þurfi að auðvelda atvinnulífinu að hlaupa hraðar. Það vekji athygli að ríkisstjórnin vilji ekki ræða að það dragi úr krafti atvinnulífsins þegar 50 milljarða gat er í nýrri fjármálaáætlun.

„Hún vill ekki ræða að það dregur úr krafti atvinnulífsins að ríkisstjórnin hefur, þvert á yfirlýsingar, erlend lán á hærri vöxtum og með gengisáhættu til að fjármagna halla ríkissjóðs. Hún vill ekki ræða að verðbólga og vextir hér er miklu meiri en í samkeppnislöndunum og hún vill ekki ræða að það dregur úr krafti atvinnulífsins þegar gjaldeyrishöft eru tekin fram yfir frelsi í viðskiptum“ segir Þorgerður í ræðu sinni á Eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. 

Hún segir hættumerki í samfélaginu hafa verið víða fyrir veirufaraldurinn. Gríðarleg skuldasöfnun vegna veirufaraldursins hafi verið óhjakvæmileg. Því dugi ekki hefðbundin loforð um stóraukin ríkisútgjöld eða markmið um að ná aftur verðmætasköpun frá 2019. „Við þurfum að ná meiri hagvexti til að standa vörð um velferðarkerfið. Þau atriði sem ríkisstjórnin vill ekki ræða koma i veg fyrir að atvinnulifið geti hlaupi jafnhratt og við þurfum“ segir Þorgerður. 

Viðreisn vill tryggja stöðugleika og sambærilegt viðskiptafrelsi og nágrannalönd okkar njóta með því að víkka út EES -samninginn og semja við Evrópusambandið um að tengja krónuna við evru, líkt og gert er í Danmörku.

Hún segir sorglegt að horfa upp á viðbrögð oddvita ríkisstjórnarflokkanna í Samherjamálinu.

„Oddvitar stjórnarflokkanna hafa sett upp silkihanskana í gagnrýninni og muldrað sakleysisleg orð um að þetta sé óviðeigandi og óeðlilegt. Þannig gengisfella þeir alvöruna í málinu því samsæri stórfyrirtækiss gegn blaðamönnum er ekki bara óviðeigandi heldur árás á lýðræðislega umræðu. Orð skipta nefnilega máli en það þarf engum að koma á óvart að formenn ríkisstjórnarflokkanna nota bara inniröddina.“ segir Þorgerður.

Þorgerður segir það skýra stefnu Viðreisnar að öll kerfi samfélagsins þurfi að þjóna almenningi. Þau eigi að vera sanngjörn, notendavæn og skilvirk, Þeim eigi ekki að vera stjórnað af hagsmunaöflum. Ísland verði að vera þjóð meðal þjóða og hafa rödd á alþjóðlegum vettvangi þar sem ákvarðanir eru teknar.