Rannsókn á skolpi sýnir fram á aukna eiturlyfjaneyslu

07.06.2021 - 10:41
A cocaine user in London, Britain, 16 January 2009. The number of people in the UK addicted to the 'celebrity' drug cocaine is reaching shocking levels, reports suggest. Britons consume more cocaine than almost any other country in Europe,
 Mynd: EPA
Neysla kókaíns jókst á Höfuðborgarsvæðinu á árunum 2017 til 2019 og sömu sögu má segja um neyslu amfetamíns og metamfetamíns. Þá er neysla efnisins sambærileg og í öðrum norrænum höfuðborgum. Þetta sýna niðurstöður doktorsritgerðarinnar Fíkniefni í frárennsli frá Reykjavík sem Arndís Sue Ching Löve varði síðasta föstudag.

Rannsóknin byggir á þeirri kenningu að hægt sé að líta á frárennslisvatn sem samansafn þvagsýna frá heilu samfélagi. Háþrýstivökvagreinir tengdur tvöföldum massaskynjara var notaður við greiningu sýna sem safnað var úr skolphreinsistöðvum. Sýnin voru tekin á ellefu tímapunktum frá febrúar 2017 til júní 2020. Mælt var fyrir algengum fíkniefnum og þau metin í mg/dag/1000 íbúa. 
 
Morgunblaðið greinir frá því að sýnatakan hafi staðið yfir í sjö daga í röð í hvert sinn í skolphreinsistöðvum við Klettagarða og Ánanaust. 
 

Kókaínnotkun sambærileg og á Norðurlöndunum

Notkun kókaíns hækkaði töluvert frá 2017 til 2019 en dróst saman í byrjun kórónuveirufaraldursins 2020, MDMA notkun var stöðug á tímanum en aukning var greinanleg á notkun efnanna um helgar og í kringum tónlistarhátíðina Iceland Airwaves. 
 
Sömu greiningaraðferðum var beitt í samskonar rannsóknum í Osló, Stokkhólmi, Þórshöfn og Helsinki. Niðurstöður sýndu að mest amfetamín magn var að finna í Reykjavík og Stokkhólmi, mest metamfetamín var í Helsinki og MDMA í Osló. Magn kókaíns var sambærilegt í Osló, Stokkhólmi og í Reykjavík. 

Andri Magnús Eysteinsson