Næstum helmingur á erfitt með einbeitingu eftir COVID

07.06.2021 - 07:39
COVID-ástand á Landakoti
 Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso - Ljósmynd
Næstum helmingur þeirra sem hafa smitast af COVID-19 á erfitt með að einbeita sér þremur til sex mánuðum síðar og næstum sjötíu prósent finna enn fyrir þreytu og slappleika. Þetta kemur fram í rannsókn vísindamanna við Háskóla Íslands á langtímaeinkennum COVID-19 sem var kynnt á málstofu í háskólanum í síðustu viku.

Þremur til sex mánuðum eftir smit hefur einkennum fækkað að meðaltali úr 12,6 í 6,5 frá því sá smitaði var í einangrun. Sigríður Zoega, fyrsti höfundur rannsóknarinnar, segir að í flestum tilfellum hafi einnig dregið úr styrkleika einkennanna á þessum tíma.

„En þremur til sex mánuðum eftir smit voru samt sem áður um 16 prósent með mikla þreytu eða slappleika og 12 prósent sem töluðu um að finna enn fyrir miklum vöðvaverk og höfuðverk og mæði. Og níu prósent höfðu töluverða truflun á bragð- og lyktarskyni,“ segir hún. 

58 prósent mátu heilsu sína verri eftir veikindin en fyrir, 12% sögðu hana betri en hjá 30% var hún óbreytt. 48 prósent sögðust enn finna fyrir einbeitingartruflunum og 16 prósent talsverðum eða mjög miklum. Nú stendur til að rannsaka heilsu sama hóps 12 mánuðum eftir smit. Sigríður segir niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi þess að þeim sem hafi smitast standi til boða endurhæfing. 

„Og við teljum að það sé mikilvægt að fylgjast áfram með þróun þessara einkenna og fylgjast með endurhæfingarþörfum fyrir þennan hóp,“ segir Sigríður. 

Rannsóknin var gerð með svokallaðri lýsandi þversniðskönnun. Þátttakendur voru einstaklingar, 18 ára og eldri, sem voru með jákvætt PCR-próf fyrir SARS-CoV-2 og voru í þjónustu COVID-19 göngudeildar Landspítala. Spurningalisti með spurningum um einkenni og líðan var sendur þátttakendum í pósti. Sjúklingar svöruðu annars vegar um líðan í einangrun og hins vegar þegar 3-6 mánuðum frá smiti.