Hlynur metinn hæfastur umsækjenda um dómarastöðu

07.06.2021 - 07:44
Mynd með færslu
 Mynd: Eva Björk Benediktsdóttir - RÚV
Hlynur Jónsson lögmaður er hæfastur umsækjenda um stöðu dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra, að mati dómnefndar. Fimm sóttu um stöðuna en einn dró umsókn sína til baka.

Auk Hlyns sóttu þau Herdís Hallmarsdóttir, Karl Óttar Pétursson, Oddir Þorri Viðarsson og Sigurður Jónsson um stöðuna. Karl Óttar dró umsókn sína til baka.

Dómnefndin komst að þeirri niðurstöðu að allir umsækjendurnir hafi öðlast þá lögfræðiþekkingu sem dómari þarf til að bera, sérstaklega þegar litið væri til reynslu þeirra af dómarastörfum, lögmanns- og málflutningsstörfum og reynslu af stjórnsýslustörfum. Umsækjendurnir voru metnir vel hæfir til að gegna dómaraembætti í ljósi menntunar og starfsreynslu. Hlynur þótti standa fremstur í þessum matshluta en munurinn var ekki afgerandi svo einnig var litið til annarra þátta sem dómnefndin mat. Hann og Oddur þóttu fremstir í hæfni til að nýta lögfræðiþekkingu sem þeir búa yfir til að leysa úr dómsmálum á skipulegan og rökstuddan hátt. Að því loknu mat dómnefndin Hlyn hæfastan til að verða dómari. 

Dómnefndin mat Hlyni meðal annars til tekna að hafa starfað sem lögmaður í sextán ár, hafa verið lögfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu, setið í ráðherraskipuðum nefndum sem unnu viðamikil lagafrumvörp 2005-2007 og hafa verið formaður slitastjórna þriggja fjármálafyrirtækja.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV