Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hjúkrunarfræðinga vantar á 500 vaktir á bráðadeild

07.06.2021 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Hjúkrunarfræðinga vantar á 500 vaktir á bráðadeild Landspítala í sumar og fjórir læknar hafa hætt störfum þar það sem af er ári. Formaður Félags bráðalækna segir að ekki verði hægt að tryggja öryggi sjúklinga á deildinni að óbreyttu. Stjórnendur spítalans funduðu um stöðuna í morgun. 

Bergur Stefánsson, formaður Félags bráðalækna, segir að það stefni í að ekki takist að uppfylla skilgreinda neyðarmönnun. Vandinn sé ekki nýtilkominn, sérfræðilæknar á bráðamóttökunni hafi bent á hann frá árinu 2014.

„Ef þú ert með vinnustað sem er undir gríðarlegum þrýstingi árum saman þá endar með því að fólk finnur sér annan farveg. Frá áramótum höfum við til dæmis misst fjóra sérfræðilækna sem hafa leitað í önnur störf,“ segir Bergur.

Hvernig er með aðra heilbrigðisstarfsmenn sem  vinna á deildinni; hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða eða aðra - er svipuð staða þar? „Hjá hjúkrunarfræðingunum er staðan rosalega erfið. Síðast þegar ég frétti voru um 500 vaktir hjúkrunarfræðinga sem vantaði í sumar.“
Á þessa einu deild? „Á þessa einu deild, já. “

Að sögn Bergs hefur landlæknir látið í ljós ítrekaðar áhyggjur vegna stöðunnar og sent heilbrigðisráðherra bæði skýrslur og minnisblöð undanfarin ár.

„ Mér telst saman að þetta séu um fimm skýrslur og minnisblöð sem hafa verið send ráðherra frá 2018.“
Og hvaða áhrif hafa þessar skýrslur og minnisblöð haft á stöðuna? „Staðan hefur farið síst batnandi.“

Bergur segir að verði ekki bætt úr, verði ekki hægt að tryggja öryggi sjúklinga á deildinni. „Og þá erum við um leið að stefna þeim í hættu,“ segir hann.

Er þetta versta staða sem verið hefur uppi á deildinni? „Hvað varðar mönnun á læknavængnum, þá myndi ég segja tvímælalaust já.“

Bráðalæknar vöktu athygli stjórnenda Landspítala á læknaskortinum í byrjun maí en Bergur segir að það hafi lítil viðbrögð fengið. Samkvæmt upplýsingum frá spítalanum funduðu stjórnendur hans um stöðuna í morgun. Þeir hafa upplýst heilbrigðisráðuneytið og í svari spítalans við fyrirspurn Fréttastofu segir að nú sé unnið að þeim lausnum sem séu á færi spítalans. Bergur segir að bráðalæknar hafi óskað eftir fundi með heilbrigðisráðherra og með Velferðarnefnd Alþingis, en því hafi verið hafnað.  

„Við þurfum á því að halda að það verði gripið til alvöru aðgerða, alvöru úrbóta,“ segir Bergur.