Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Einboðið að hraun renni yfir gönguleiðina

Mynd: Bjarni Pétur Jónsson / RUV
Varnargarðarnir við eldgosið hafa sannað gildi sitt, segir aðstoðaryfirlögregluþjónn. Hægt verði að nýta hönnun þeirra til að stöðva hraunflæði tímabundið. Hann segir ljóst að á einhverjum tímapunkti flæði hraun yfir núverandi gönguleið. 

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir ekki enn vera hægt að átt sig á hve langan tíma taki fyrir hraunflæðið úr Meradölum að ná Suðurstrandarvegi. 

„Alveg frá tveim vikum upp í þrjá mánuði þannig að þetta er einhvers staðar þarna á milli.“ Myndarleg hraunelfur rennur niður hlíðarnar að Nátthaga líkt og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. Nú flæðir niður í Nátthaga frá tveimur stöðum úr Meradölum syðri.

Rögnvaldur segir einboðið að hraun renni yfir gönguleiðina að gosstöðvunum á einhverjum tímapunkti. Erfitt sé að meta hvenær það geti gerst. Gaumgæfilega sé fylgst með framvindunni.

„Hraunið flæðir þarna á milli og finnur sér einhverja leið. Það rennur að því er virðist mjög auðveldlega en síðan kemur eitthvað upp á. Það losnar annað hvort eitthvað stykki sem stíflar eða eitthvað annað sem hefur áhrif,“ segir hann.

„Þá fer það allt í einu í aðra átt og stundum mjatlast það jafnt í allar áttir. Það er allur gangur á þessu og erfitt að spá nákvæmlega fyrir um hvenær verði breytingar.“

Varnargarðarnir hafa sannað gildi sitt

Rögnvaldur segir hönnun varnargarða sem reistir voru við eldstöðvarnar gefa góðar væntingar um að unnt verði að hafa áhrif á hraunstrauminn til skamms tíma og staðbundið. 

Iðulega hafi varnargarðar verið gerðir í flýti án þess að einhver hönnun væri að baki. Þarna var settur upp jarðvegur, samkvæmt hönnun, og garðarnir héldu í viku. 

„Þeir hafa haldið allan tímann og hafa ekki rofnað. Það gefur okkur góðar væntingar um að hægt sé að hafa áhrif til skamms tíma og staðbundið. Það er eitthvað sem við munum nýta okkur til framtíðar, hvort sem er núna við þetta gos eða önnur gos í framtíðinni.“

Rögnvaldur segir ekki hafa legið ljóst fyrir hvaða hönnun myndi virka af því ýmislegt hefur verið reynt í gegnum tíðina bæði hérlendis og erlendis.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV