Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Efast um eftirlitsgetu Landlæknis og vilja óháða úttekt

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Geðhjálp veltir fyrir sér getu embættis landlæknis til að sinna eftirliti með heilbrigðisstofnunum, og viðrar áhyggjur vegna viðbragða stjórnenda Landspítalans í kjölfar gagnrýnna ábendinga sem settar hafa verið fram um starfsemi réttargeðdeildar spítalans.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Geðhjálp, í kjölfar umfjöllunar fréttastofu um stöðuna á réttargeðdeildum Landspítalans. Greint var frá alvarlegum ábendingum frá núverandi og fyrrverandi starfsmönnum á deildunum. Þar var meðal annars lýst ofbeldi, lyfjaþvingun og margvíslegum samskiptavanda. Samkvæmt lýsingu starfsmanna brugðust stjórnendur spítalans ekki við áhyggjum starfsfólks með nægilega vönduðum hætti og leitaði starfsfólk því til Geðhjálpar sem gerði Landlækni viðvart.

Í tilkynningu frá Geðhjálp segir að það hafi komið samtökunum á óvart hversu takmörkuð viðbrögð fengust frá yfirstjórn spítalans og eftirlitsaðilanum; Landlæknisembættinu. Þá veltir Geðhjálp því upp hvort Landlæknisembættið taki ekki fyllilega mark á alvarlegum ábendingum, þar sem þær voru settar fram nafnlaust af ótta við að starfsfólk missi vinnuna.

„Þetta er að mati stjórnar Geðhjálpar alvarlegt og eðlilegt að spyrja hvort Embætti landlæknis hafi sinnt eftirlitshlutverki sínu með fullnægjandi hætti og hvort ekki hefði mátt telja rétt af embættinu að leita skýringa hjá Geðhjálp, spyrja hvort þeir starfsmenn sem lögðu ábendingarnar fram væru reiðubúin að koma fram undir nafni í samtali við embætti Landlæknis og hefja ítarlega rannsókn í ljósi alvarleika ábendinganna,“ segir í tilkynningunni.

Gera kröfu um fjórar aðgerðir til úrbóta

Í bréfi frá Landlæknisembættinu til Geðhjálpar, sem greint er frá í tilkynningu, kemur fram að embættið telji stjórnendur geðþjónustu Landspítalans hafi unnið vel úr málunum. Deildarstjóri væri farinn í leyfi frá störfum en embættið væri að fylgja málinu frekar eftir.

„Það eru rúmir sex mánuðir liðnir frá því að ábendingarnar komu fyrst fram og viðbrögðin eftirlitsaðilans virðast vera sambærileg og ef um minniháttar mál væri að ræða,“ segir í tilkynningu Geðhjálpar sem setur jafnframt fram kröfur um aðgerðir.

  • Gerð verði óháð úttekt á starfsemi allra deilda geðsviðs Landspítalans.
  • Gerð verði sérstök úttekt á því hvernig starfsemi hefur verið háttað á öryggis- og réttargeðdeildum spítalans með hliðsjón af þeim alvarlegu ásökunum sem fjöldi starfsmanna, aðstandenda og notenda hefur nú komið fram með.
  • Farið verði yfir eftirlitshlutverk Landlæknisembættisins og lagt mat á það hve mikið vantar upp á til að embættið geti sinnt því með fullnægjandi hætti og hvort heppilegra væri að önnur hlutlausari og ótengdari stofnun/aðili sinni þessu eftirliti.
  • Gerð verði heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. 

Segja verið að festa þvingun og nauðung í lög

„Á öryggis- og réttargeðdeildum Landspítalans dvelur fólk svo mánuðum og jafnvel árum skiptir. Það verður að vera hægt að treysta því að starfsemi sem fer þar fram, sem og á fleiri lokuðum deildum standist lög og ákvæði stjórnarskrárinnar,“ segir í tilkynningunni.

Þá lýsir Geðhjálp yfir vonbrigðum með frumvarp heilbrigðisráðherra um lög og réttindi sjúklinga sem nú liggur fyrir Alþingi, og telur það fela í sér afturför. Með því væri að festa í lög beitingu þvingunar og nauðungar.

„Geðhjálp skorar á þingheim og samfélagið allt að hverfa frá hugmyndafræði valds og þvingana þegar kemur að meðferð tengdri geðrænum áskorunum og endurvekja aukna mannúð og skilning,“ segir í tilkynningu Geðhjálpar.