Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ætla að bregðast við vanda bráðadeildar með hraði

07.06.2021 - 16:19
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Stjórnendur Landspítala vinna nú með hraði að lausn þess vanda sem fyrirsjáanlegur er á bráðadeild spítalans, en Félag bráðalækna telur að ekki verði hægt að tryggja öryggi sjúklinga þar í sumar vegna skorts á læknum og hjúkrunarfræðingum. Stjórnvöld hafa verið upplýst um stöðuna.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Önnu Sigrúnar Baldursdóttur, aðstoðarmanns Páls Matthíassonar forstjóra Landspítala, við fyrirspurn fréttastofu. Fram hefur komið í fréttum að hjúkrunarfræðinga vanti á 500 vaktir á bráðadeildinni í sumar, að fjórir læknar hafi hætt þar störfum það sem af er þessu ári og allt stefni í að ekki takist að uppfylla skilgreinda neyðarmönnun.

Formaður Félags bráðalækna sagði í hádegisfréttum útvarps í dag að þetta væri versta staða sem upp hefði komið á deildinni, en bráðalæknar hafa ítrekað vakið athygli heilbrigðisyfirvalda á henni frá árinu 2017.

Í svarinu til fréttastofu segir að framkvæmdastjórn spítalans taki undir áhyggjur starfsfólks af erfiðu starfsumhverfi, sem m.a. birtist í manneklu meðal bráðalækna. „Stjórnendur spítalans hafa upplýst stjórnvöld um stöðuna og spítalinn vinnur stöðugt að þeim lausnum sem á hans færi eru. Er nú unnið með hraði að útfærslu á aðkomu annarra lykilsérgreina lækninga að þjónustu sjúklinga á bráðamóttökunni til að bregðast við alvarlegum mönnunarvanda í röðum bráðalækna,“ segir í svarinu.