Tignarleg fley auðjöfra lónuðu úti fyrir Sæbraut

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV

Tignarleg fley auðjöfra lónuðu úti fyrir Sæbraut

06.06.2021 - 21:07

Höfundar

Einkasnekkjur í eigu rússneskra auðjöfra lónuðu í dag út fyrir Sæbraut. Önnur er þrímastra og ber nafnið A. Hin er hefðbundnari og nefnist Le Grand Bleu. Samkvæmt upplýsingum frá Faxaflóahöfnum stendur ekki til að snekkjurnar leggist að bryggju í Reykjavíkurhöfn.

Eflaust hafa einhverjir borgarbúar talið að verið væri að taka upp atriði fyrir James Bond-mynd þegar þeir óku eftir Sæbraut í dag og snekkjurnar tvær dóluðu fyrir utan höfnina í Reykjavík.

Það er helst önnur þeirra sem kallar fram hugrenningatengsl við leyniþjónustumanninn og þrjótana sem hann hefur þurft að kljást við í meira en hálfa öld. Nafn hennar gerir lítið til að draga úr slíkum vangaveltum. Hún nefnist einfaldlega A og eru í eigu ólígarksins Andrey Melnichencko sem hefur verið á ferðalagi um Ísland síðustu vikur.   

Snekkjan var smíðuð hjá þýsku skipasmíðastöðinni Nobiskrug í Kiel, aðalhönnuður hennar er hinn virti Phillip Starck og hún er nærri 143 metrar að lengd. Þrjú möstur skútunnar eru einkennismerki hennar og aðalmastrið hundrað metrar. Yfir fimmtíu manns eru í áhöfn.

Hin snekkjan, La Grand Bleu, virkar því eins og hálfgerður skemmtibátur við hliðina á ofursnekkju Melnichencko þótt hún sé 113 metrar á lengd. Hún er hefðbundnari í útliti og er feykilega kraftmikil. Snekkjan er hönnuð af hinum ítalska Stefano Pastrovich og geta 20 gestir dvalist um borð í miklum munaði.

Fortíð skútunnar er býsna skrautleg því sagan segir að fyrri eigandi hennar, Roman Abramovich, hafi tapað henni til núverandi eiganda, Eugene Shvidler, í pókerspili. 

Í frétt AP-fréttastofunnar fyrir fjórum árum kom þó fram að Scvidler hefði greitt fyrir hana á sínum tíma. Þar er jafnframt rifjað upp að hún hefði komið í veg fyrir að ferðamenn gátu virt fyrir sér Frelsisstyttuna í New York.