Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sameining Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps enn möguleg

Drónamyndir af Blönduósi.
Blönduós Mynd: RÚV - Jóhannes Jónsson
Íbúar Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar samþykktu sameiningu sveitarfélaganna í gær. Um tveir af hverjum þremur kjósendum voru samþykkir sameiningunni í hvoru sveitarfélagi. Ekkert verður hins vegar af sameiningu fjögurra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. Formaður kjörstjórnar í Húnavatnshreppi telur ekki ólíklegt að fljótlega verði greidd atkvæði um sameiningu sveitarfélagsins við Blönduósbæ.

286 greiddu atkvæði með sameiningu í Þingeyjarsveit en 146 á móti henni. Kjörsókn þar var 66,6 prósent. Í Skútustaðahreppi féllu atkvæði þannig að 159 merktu við já og 71 merkti við nei.  

Sameiningu hafnað með fimm atkvæðum í Skagabyggð

Tillaga um sameiningu fjögurra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu var hins vegar felld. Sameiningu var hafnað með aðeins fimm atkvæðum í Skagabyggð en nokkuð afgerandi meirihluta, 70 prósentum, í Sveitarfélaginu Skagaströnd. Hún var samþykkt í Húnavatnshreppi með 56,6 prósentum atkvæða og í Blönduósbæ með 89,4 prósentum atkvæða. Öll sveitarfélögin urðu að samþykkja tillöguna til þess að af sameiningunni yrði.

Steingrímur Ingvarsson, formaður kjörstjórnar í Húnavatnshreppi, segir málið mikið hitamál í hreppnum og að þar séu margir óánægðir með niðurstöðuna. 

„Við erum auðvitað óánægð með það, það er ekki spurning. En það er spurning hvort það verði ekki bara áframhaldandi viðræður við Blönduósbæ, þá fyrir alþingiskosningarnar í haust,“ segir hann.

Já, áttu von á því?

„Já, ég á frekar von á því að það verði leitast eftir því allavega. Bara þess vegna í haust fyrir kosningarnar,“ segir Steingrímur.  

Teljiði mikinn missi af því að hafa ekki Skagabyggð og Skagaströnd með? 

„Það er auðvitað verra, það hefði verið best að reyna að sameina þetta, það hefði verið hagstætt fyrir byggðina hérna að standa frekar saman. Það hefði verið sterkara út á við, ef við kæmum saman sem ein heild,“ segir hann.