Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Nýr höfundur snýr lipurlega upp á karlmennskuna

Mynd: Forlagið / Forlagið

Nýr höfundur snýr lipurlega upp á karlmennskuna

06.06.2021 - 10:00

Höfundar

Frumraun Einars Lövdahl, smásagnasafnið Í miðju mannhafi, lofar góðu, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi. „Hann er greinilega lipur penni og hefur ágætt vald á formi smásögunnar og kryddar hana með nútímavæðingu eins og formi tölvupóstsins.“

Gauti Kristmannsson skrifar:

Ungskáldin spretta upp þessa daga eins og túlípanar á vori. Ein af ástæðunum er handritasamkeppni Forlagsins, Nýjar raddir. Vegna hennar voru tvær bækur að koma út, smásagnasafnið Í miðju mannhafi eftir Einar Lövdahl og skáldsagan Að telja upp í milljón eftir Önnu Hafþórsdóttur. Smásagnasafnið samanstendur af átta sögum sem virðast við fyrstu sýn vera alls óskyldar, þær eiga ekki sameiginlegar sögupersónur, til að mynda. Hins vegar standa nokkur atriði upp úr, sem þó er ekki hægt að kalla þemu, þau koma einfaldlega fyrir í sögunum. Eitt er fótbolti, eins og til dæmis í fyrstu sögunni og titilsögunni og annað gæti verið barnleysi. Einnig er snert á eitraðri karlmennsku í nokkrum sögum, sérstaklega þó titilsögunni, annarri sem heitir „Rót“ og loks „Vegna atviks hér innanhúss“, sem er skrifuð sem tölvupóstur eins og fyrsta sagan er einnig.

Sögurnar átta eru haganlega skrifaðar, raunsæjar og snerta hluti í samtímanum sem hreyfa við okkur töluvert þessa dagana. Í fyrstu sögunni, „Við vorum meistarar“, skrifar sögumaður til vina sinna langa útskýringu á því hvers vegna hann kom illa fram við félaga sína í boltanum og við fáum innsýn í þrá ungs drengs eftir föður og fyrirmynd. Auðvelt var að tengja við þessar tilfinningar unga mannsins. Athyglisverður snúningur verður á sögunni eins og vera ber í smásögum, en það er eitt helsta einkenni þessa bókmenntaforms.

Saga númer tvö, „Hvers vegna getum við ekki flogið“, fjallar á yfirborðinu um spælingu vinar í partíi, en snýst undir niðri um löngun manneskjunnar til að eignast börn. Um leið glittir í trýnið á karlmennskunni, þessum brandarakörlum sem grínast á annarra kostnað, leynt og ljóst. Það er kannski ekki einkaeign karlmanna, en það er samt töluverður hluti af menningu þeirra og er stundum beitt í raunverulegu gríni með nokkrum saltkornum af íroníu og gjarnan sjálfsháði, jafnvel til að hæla vininum sem fyrir verður, en svo eru það hinir sem reyna að hækka sig á stalli með því að skjóta á veikleika vina sinna og þeir eru af annarri hlaupvídd.

Þriðja sagan, „Blöðrur“, er sú óræðasta. Þar eru þrjár kynslóðir kvenna í öllum aðalhlutverkum, amma, móðir og dóttir. Mér sýnist þetta vera dálítið nösk athugun á því hvernig mæður og ömmur sjá börn með mismunandi hætti, örlítill pirringur hversdagsins ólgar undir en samt geta mæður og dætur alltaf náð saman á endanum, eða hvað?

„Rót“ heitir fjórða sagan og hér er tekið á eitraðri karlmennsku brandarakarlanna í félagahópnum í býsna hrollvekjandi sögu um „vinskap“ innan gæsalappa, sem snýst fremur um að niðurlægja. Sagan fer hins vegar með sögumann og lesendur í nokkuð óvænta átt og tekur kannski betur á vandamálinu en hann og vinirnir góðu áttu von á. En sumir ungir karlmenn virðast líta á vinskap sinn við einhverja í hópnum sem eitt steggjapartí og kannski má greina eitthvert óþol höfundar gagnvart því.

Fimmta sagan, „Í miðju mannhafi“, tekur á hinni eitruðu karlmennsku undir fáguðu yfirborði, karlmennsku sem brýst út á fótboltaleik. Hér er undirstrikað að engin manneskja er öll þar sem hún er séð og í þessu tilfelli kynnist sögukonan manni sem kemur henni á óvart með því að bjóða henni á knattspyrnuleik og svo aftur þegar hún kemur og hann er með ungan son sinn sér við hönd. Lokin á sögunni eru svo klassískur snúningur. Þetta er samt mjög vel uppbyggð saga úr hversdeginum sem gæti gerst á hverjum degi hvað sem öllum snúningum líður.

„Eftir hvellinn er allt hljótt“ er saga um þríhyrning og hverfula ást ungs manns sem ekki gerir sér grein fyrir því sem er að gerast fyrr en óvænt atvik verður þar sem hann er staddur í danska bænum Kolding. Þarna nýtir höfundur sér raunverulegan atburð en árið 2004 varð mikil sprenging í Kolding þegar flugeldaverksmiðja sprakk í loft upp. Sprengingin opnar augu hans fyrir því hvar hjarta hans er statt á því augnabliki og það er kannski ekkert síður sár uppgötvun en glerbrotin ollu sem hann fékk í sig við hana.

Höfundur notar aftur form tölvupóstsins í sjöundu sögunni, „Re: Fwd: Vegna atviks innanhúss“ og aftur er manneskja að tala eigin máli, í þetta skipti kona sem látin hefur verin fara úr starfi sem hún hafði mikla ánægju af. Hún hafði verið fórnarlamb manns nokkurs sem hún hittir í tengslum við starfið og þegar það kemur upp er brotið í raun og veru endurtekið og hún rekin úr starfi. En hún neitar að vera fórnarlamb og sendir þennan tölvupóst sem hún kallar „ritgerð“ til fyrrum samstarfsfélaga sinna. Enn á ný opinberast karlmennska í sínu ljótasta ljósi.

Lokasagan, „Glæður“, er af dálítið öðrum toga en flestar hinna, og hún býr yfir nokkuð sérstæðu andrúmslofti þar sem hún segir frá líkbrennslumanni á útfararstofu, manni sem segir ekki farir sínar í lífinu sléttar, en virðist hafa fundið að minnsta kosti fjöl til að standa á. Endirinn á sögunni er kannski nokkuð fyrirsjáanlegur vönum lesendum, býst ég við, en höfundi tekst samt að gæða hann rómantískum blæ eins og tíðkast í klassískum smásögum.

Þessi frumraun Einars Lövdahls boðar bara nokkuð gott, sýnist mér, hann er greinilega lipur penni og hefur ágætt vald á formi smásögunnar og kryddar hana með nútímavæðingu eins og formi tölvupóstsins. Stíllinn er áreynslulaus og frásagnirnar líða vel fram í raunsæi sínu en kannski mætti vera örlítið meiri fyrirstaða hér og þar. Mest um vert er þó að hann tekst á við efni sem skipta máli í samtímanum og skoðar fordómalaust fyrirbæri eins og karlmennskuna frá ýmsum sjónarhornum; gerenda og fórnarlamba af báðum kynjum, og þessi afhjúpun eða afbygging karlmennskunnar gengur vel upp að mínu mati. Það gefur góðar vonir um að þessi túlipani blómstri fallega áður en langt um líður.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Frumraun sem lítur alls ekkert út eins og frumraun

Bókmenntir

Mannbætandi verk fyrir sál og sinni

Bókmenntir

Andi Nabokovs svífur yfir sögu um einsemd

Bókmenntir

Oksanen afhjúpar grimmdina sem konum hefur verið sýnd