Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Notar listina til að ná merkingunni úr Excel-gröfunum

Mynd: Menningin / RÚV

Notar listina til að ná merkingunni úr Excel-gröfunum

06.06.2021 - 09:00

Höfundar

Hoffellsjökull hefur verið miðlægur í rannsóknum Þorvarðar Árnasonar, forstöðumanns Rannsóknarstofnunar Háskóla Íslands í Hornafirði, sem er líka afkastamikill ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður.

Þorvarður Árnason er forstöðumaður rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði. Hann er líka kvikmyndagerðarmaður og ljósmyndari og fer stundum óhefðbundnar leiðir við miðlun á rannsóknum sínum. 

„Ég er þverfaglegur rannsakandi, náttúrufræðingur af gamla skólanum eða umhverfishugvísindamaður eins og það er kallað í dag. Ég vinn mikið með málefni sem varða náttúruvernd, friðlýst svæði, landslagsrannsóknir, óbyggð víðerni og nú upp á síðkastið loftslagsmál. Náttúran á hug minn allan og það eru algjör forréttindi fyrir mig að búa á Höfn og geta skotist hingað í Hoffell, upp að jökli. Mín rannsóknarstofa, jöklarnir og bráðnun jökla, hún er bara rétt innan seilingar.“ 

Það hefur orðið talsverð skörun milli vísinda og lista í störfum Þorvarðar, sem finnst mikilvægt að geta flökt á milli þessara heima. 

„Hjá mér tengist það saman þannig að ég er að rannsaka landslag; ég er að rannsaka hið villta í náttúrunni, hvernig hið villta orkar á okkur sem manneskjur. Núna er ég að reyna að ná utan um hamfarahlýnun, hvað hún þýðir bæði fyrir okkur mannfólkið en líka lífverurnar á jörðinni og jarðarkerfið í heild sinni. Hér er ég með bráðnun jökla beint í æð. Ég varð sjónarvottur að hamfarahlýnun og eftir það varð ekki aftur snúið.“

Frá árunum 2008 til 2015 fór Þorvarður að fara skipulega upp að sporði Hoffellsjökuls til að skrásetja hvernig  hann hopaði.  

„Bráðnunin var frekar róleg til að byrja með en áður en langt um leið fóru að verða rosalegar breytingar frá mánuði til mánaðar. Árið 2015 hætti ég þessu því þá var jökullinn kominn svo langt í burtu að ég sá lítinn mun á myndunum. Þá blasti sárið við í nokkurra kílómetra fjarlægð.“ 

Í framhaldinu fór Þorvarður að velta fyrir sér hvernig best væri að koma þessum vettvangsrannsóknum á framfæri og þá kom listræna nálgunin sér vel.  

„Það sem ég hef verið að gera á síðsastliðnum tveimur eða þremur árum er að reyna að samþætta þetta mjög náið. Þar skiptir sköpum fyrir mig að komast í samstarf við ungan Skota, dr. Kiearan Baxter. Við höfum verið að vinna saman að því að sjóngera hamfarahlýnun í gegnum bráðnun hornfirskra jökla.“ 

Samstarf Þorvarðar og Baxters hefur nú getið af sér eina heimildarmynd, After Ice, sem kom út í mars og önnur mynd er væntanleg.

„Þessa mynd okkar, After Ice, ég kalla hana lýríska heimildarmynd. Grundvallaratriðið í því sem við erum að gera er að við byggjum allt á vísindalegri þekkingu en á sama tíma finnst okkur þessar dæmigerðu miðlunarleiðir sem vísundunum stendur til boða eiginlega fyrirfram vonlausar. Ef við viljum ná til almennings þurfum við að nota aðrar miðlunarleiðir. Þar kemur fagurferðið, listirnar sterkar inn. Við þurfum einhvern veginn að koma merkingunni út úr Excel skjölunum, út úr gröfunum, á þannig form að það er hægt að flytja skilninginn frá einum mannshuga til annars.“ 

Þorvarður heimsækir Hoffellsjökull enn reglulega. Hann lítur hreinlega á jökulinn sem vin sinn. 

„Þessar upplifunanir sem ég hef orðið fyrir á ferðum mínum hér eru svo dýrmætar á margan hátt; afskaplega djúpar fagurferðilegar upplifaniro og vitundarvakning mín um raunveruleika hamfarahlýnunar. En þar fyrir utan, að bara vera hér í dásamlegu veðri, að ganga hér um og njóta þess að vera til.“

Rætt var við Þorvarð Árnason í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan. Í innslaginu var Þrúðmar Sigurður Þrúðmarsson, ábúandi og safnstjóri í Jöklaveröld í Hoffelli rangnefndur. Beðist er velvirðingar á þeim mistökum.  

 

Tengdar fréttir

Suðurland

Sýnir hop jökla með nýrri þrívíddartækni

Bókmenntir

Jökull, maður og myndavél