
Hugleiða eigin hegðun í ljósi metoo-umfjöllunarinnar
Metoo-umfjöllunin virðist frekar hafa vakið ungt fólk til umhugsunar en það eldra, en næstum 74 prósent fólks undir fertugu segjast hafa leitt hugann að eigin hegðun og samskiptum í tengslum við umfjöllunina. Hlutfallið lækkar með hækkandi aldri en þó segja 47 prósent fólks yfir sextugu að metoo-bylgjan hafi haft slík áhrif á sig.
Ríflega sex af hverjum tíu segjast hafa rætt við einhvern um kynferðislega áreitni eða kynferðisofbeldi í kjölfar umfjöllunarinnar, flestir bæði við einhvern af sínu kyni og öðru kyni. 68 prósent kvenna hafa rætt málefnið á móti tæplega 57 prósentum karla og er fólk líklegra til þess eftir því sem það er yngra.
Næstum 84 prósent telja jákvætt að metoo-umfjöllunin fari fram, 90 prósent kvenna og tæp 80 prósent karla, og aðeins um fimm prósent eru henni andvíg.