Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hert að rússneskum fjölmiðlum í aðdraganda kosninga

06.06.2021 - 20:00
Mynd með færslu
Blaðamenn Meduza á fundi.  Mynd: Meduza - Aðsend mynd
Vinsælasti einkarekni fréttamiðill Rússlands hefur misst alla auglýsendur eftir að yfirvöld flokkuðu hann sem erlendan erindreka, sem jafngildir því að vera óvinur ríkisins. Ritstjórinn hefur áhyggjur af öryggi blaðamanna og segir að staðan sé slæm, jafnvel á rússneskan mælikvarða.

Dómsmálaráðuneyti Rússlands úrskurðaði í lok apríl að fjölmiðillinn Meduza skyldi skilgreindur sem erlendur erindreki. Stjórnvöld fá við það víðtækar heimildir til eftirlits með starfseminni. Fjölmörg félagasamtök hafa hlotið sömu örlög, og líka stofnun stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalny. Lögregla gerði fjölmargar húsleitir á skrifstofum samtakanna á sínum tíma og handtók þá sem henni tilheyrðu.

Að margra mati er þetta tilraun stjórnvalda til að bæla niður starfsemina, nú í tilfelli fjölmiðla. Á dögunum var rússneski fjölmiðillinn VTimes einnig skilgreindur af stjórnvöldum sem erlendur erindreki og þar á bæ hefur verið ákveðið að hætta starfseminni síðar í þessum mánuði. Radio Free Europe var skilgreint á þennan hátt árið 2017 og hefur fengið háar sektir fyrir að uppfylla ekki þau skilyrði sem stjórnvöld setja þeim, sem slíkum. 

Óttast að blaðamennirnir verði skilgreindir á sama hátt

„Innan viku eftir að stjórnvöld skilgreindu okkur sem erlendan erindreka misstum við alla auglýsendur. Fólk vill ekki tengjast pólitískum málum eins og þessu,“ segir Ivan Kolpakov, ritstjóri Meduza, í viðtali við fréttastofu. 

Ekki er ólöglegt að auglýsa hjá erlendum erindreka en það getur haft afleiðingar. Ritstjórinn segist ekki ætla að leggja árar í bát og gripið hefur verið til mikils niðurskurðar, öllum skrifstofum verið lokað, nú vinna allir heima og laun voru lækkuð um þrjátíu til fimmtíu prósent. Þá er hafin hópfjármögnun. Blaðamennirnir eiga líka á hættu að verða flokkaðir persónulega sem erlendir erindrekar. „Þá getur ríkið höfðað dómsmál á hendur blaðamönnunum. Þetta er ein auðveldasta leiðin fyrir stjórnvöld til að kúga blaðamennina okkar. Tugir blaðamanna Meduza starfa í Rússlandi og hættan sem þeir eru í hefur stóraukist á skömmum tíma,“ segir hann.

Ef blaðamenn eru skilgreindir af ríkinu sem erlendir erindrekar þurfa þeir að gefa dómsmálaráðuneyti Rússlands nákvæmar upplýsingar um alla þá fjármuni sem þeir eignast og eins um allt fé sem þeir eyða. Ef þeir gera mistök við þessa upplýsingagjöf, eða hún þykir ekki stemma, getur ríkið sektað þá, segir Kolpakov.

Viðbúið er að Meduza missi marga heimildarmenn sína vegna þessa og því bitnar þessi skilgreining stjórnvalda á blaðamennskunni. Heimildarmenn gætu lent í vandræðum fyrir samskipti sín við erlenda erindrekann og sjálfir verið flokkaðir sem slíkir.

Mynd með færslu
Ivan Kolpakov, ritstjóri Meduza.

„Skilgreiningin erlendur erindreki þýðir að við séum tengd erlendum ríkisstjórnum og séum andstæðingar rússneskra stjórnvalda. Það er sú merking sem lögð er í þessi orð, erlendur erindreki, og margir heimildarmenn sem tengjast stjórnvöldum, það verður erfitt fyrir þá að tengjast okkur á einhvern hátt,“ segir ritstjórinn.

Stjórnmálamenn sem veita Meduza viðtöl gætu einnig lent í vandræðum og verið flokkaðir sem erlendir erindrekar, svo að áhrifin á starfsemina eru mikil. 

Þá merkir þessi skilgreining að Meduza sé óvinur ríkisins, sem ritstjórinn óttast að gæti haft neikvæð áhrif á vörumerkið í hugum einhverra lesenda.

Þurfa að tilkynna með hverri frétt að þau séu erlendur erindreki

Skylt er að birta tilkynningu með stóru letri með hverri frétt á vefnum þar sem fram kemur að Meduza sé erlendur erindreki. Sama á við um allar færslur á samfélagsmiðlum. Kolpakov segir að það sé þó það auðveldasta við að stýra fjölmiðli sem sé skilgreindur sem erlendur erindreki. 

„Þetta er mikið áfall fyrir okkur því þetta er mjög flókið. Við erum ekki með neinar lausnir á reiðum höndum. Þetta er líka ömurlegt af því að Meduza er stærsti einkarekni rússneski fjölmiðillinn, þetta er því vandamál fyrir alla fjölmiðla í Rússlandi,“ segir hann.

Slæm staða hefur versnað hratt 

Rússneskt stjórnvöld hafa hert tökin á fjölmiðlum, stjórnarandstæðingum og baráttufólki síðustu misseri. Kolpakov segir að fyrir nokkrum mánuðum hefði enginn getað trúað því að búið yrði að fangelsa stjórnarandstæðinginn Alexei Navalny og að útibú stofnunar hans yrðu leyst upp um allt landið. „Né heldur hefði nokkur trúað því að lögregla myndi kerfisbundið fara heim til baráttufólks og blaðamanna fyrir mótmælafundi á götum úti. Því síður hefði nokkur trúað því að Meduza yrði flokkuð sem erlendur erindreki.“

Kolpakov segir erfitt að benda á eitthvað eitt sem líklega skýringu á þessu aukna harðræði. Staðan hafi þó ekki verið góð á liðnum árum. Víðtæk mótmæli, sem hófust nágrannaríkinu Hvíta-Rússlandi í ágúst, hafi ef til vill hrætt stjórnvöld. Þingkosningar verði í haust og flokkur Pútíns forseta standi ekki sem best. Þá hafi aukin einangrun Rússlands á alþjóðavettvangi eflaust sitt að segja. „Staðan er satt best að segja mjög slæm, jafnvel á rússneskan mælikvarða,“ segir Kolpakov.

Ákváðu að vera ekki í Rússlandi

Meduza, sem var stofnuð árið 2014, rekur vinsælan vefmiðil og framleiðir hlaðvarpsþætti. Frá upphafi hafa höfuðstöðvarnar verið í Riga í Lettlandi en fjölmargir blaðamenn eru starfandi í Rússlandi og minni skrifstofur eru þar. Ákveðið var í upphafi að hafa skipulagið svona vegna ýmissa aðgerða rússneskra stjórnvalda gegn einkareknum fjölmiðlum. Meduza er síður en svo eini rússneski fjölmiðillinn sem rekinn er frá útlöndum. Kolpakov segir að reksturinn hafi gengið mjög vel fram til þessa og að í gegnum árin hafi gengið vel að selja fyrirtækjum í Rússlandi auglýsingar. Augljóslega sé það breytt núna. 

Lögregla kom fíkniefnum fyrir heima hjá blaðamanni

Meduza hefur áður komist í heimsfréttirnar. Árið 2019 var rannsóknarblaðamaðurinn Ivan Golunov, sem flett hafði ofan af spillingu, ákærður fyrir fíkniefnabrot. Stuttu síðar kom í ljós að lögregla hafði komið ólöglegum fíkniefnum fyrir í bakpoka hans og á heimili hans í Moskvu. Þúsundir mótmæltu meðferðinni á blaðamanninum og að lokum var hann látinn laus. Kolpakov segir að það sé alvanalegt að lögregla í Rússlandi reyni að koma höggi á blaðamenn. Þetta sé auðveld leið til að sverta mannorð þeirra og koma þeim á bak við lás og slá. 28. maí síðastliðinn voru fimm lögreglumenn sem skipulögðu fíkniefnamálið gegn Golunov dæmdir í fimm til tólf ára fangelsi.

epa07643157 Russian national guard servicemen detain participants of a protest action coming to support arrested and now released Meduza's journalist Ivan Golunov suspected in drug keeping and spreading in Moscow, Russia, 12 June 2019. Ivan Golunov, a journalist specialized in corruption cases investigations was arrested by police for drug spreading and later released after a wave of public protests. Ivan Golunov denies the accusation and considers it a provocation caused by his professional activity.  EPA-EFE/YURI KOCHETKOV
Frá mótmælum vegna handtöku Ivan Golunov 12. júní 2019. Mynd: EPA

Kolpakov segir að fíkniefnin sem komið var fyrir hjá Golunov séu langt í frá það eina sem blaðamenn lendi í í Rússlandi. „Þeir hafa verið handteknir, barðir í mótmælum, brotist hefur verið inn í tölvurnar þeirra og blaðamönnum hefur verið hótað. Svona er umhverfið fyrir rússneska blaðamenn, því miður.“

epa07641713 Meduza journalist Ivan Golunov (C) reacts as he leaves the Interior Ministry's Main Investigative Directorate in Moscow, Russia, 11 June 2019. Ivan Golunov who had been put by court under house arrest on charges of attempted drug dealing, was released due to the absence of any evidence of his involvement in the crime.  EPA-EFE/SERGEI ILNITSKY
Ivan Golunov eftir að honum var sleppt úr haldi.  Mynd: EPA