Sýrlensku fjölskyldurnar ánægðar á Hvammstanga

05.06.2021 - 13:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Nú er lokið formlegri aðstoð við Sýrlendinga sem komu sem flóttamenn til Hvammstanga fyrir tveimur árum. Fjórar af fimm fjölskyldum búa enn á staðnum og ekkert fararsnið virðist á þeim.

Í maí 2019 kom hingað til lands fimmtíu manna hópur sem flúið hafði frá Sýrlandi og dvalið í flóttamannabúðum í Líbanon. Fimm fjölskyldur settust að á Hvammstanga, tíu fullorðnir og þrettán börn. Ein fjölskylda hefur síðan flutt í burtu en tvö börn hafa fæðst á Hvammstanga þannig að þau eru tuttugu í dag.

Formlegum stuðningi hætt eftir tveggja ára dvöl 

Í vikunni fögnuðu þau tveggja ára dvöl á Hvammstanga með mikilli veislu í félagsheimilinu. Um leið er formlegri aðstoð við þau hætt. „Það sem breytist kannski er ákveðinn stuðningur sem verið hefur við fjölskyldurnar. Þannig að nú standa þær algerlega á eigin fótum,“ segir Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra. Þau séu orðin fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Komin með vinnu, búin að taka bílpróf og fyrsta fjölskyldan hefur keypt sér íbúð. 

„Ég er bara mjög stolt af fólkinu og verkefninu í heild“

Liljana Milenkoska, verkefnastjóri móttöku flóttamanna á Hvammstanga, átti að sinna því starfi í eitt ár en framlengdi það um sex mánuði. Hún er ánægð með árangurinn. „Ég er bara mjög stolt af fólkinu og verkefninu í heild. Það er ekkert nema ást og góðar tilfinningar gagnvart fólkinu.“

„Mig langar að læra meiri og meiri íslensku“

Þær Sabah Mustafa Alhaj, sem vinnur á leikskólanum Ásgarði, og Aisha Abdal Hamad, starfsmaður á sjúkrahúsinu á Hvammstanga, segjast ákaflega þakklátar fyrir hvernig tekið hefur verið á móti þeim. „Mig langar að læra meiri og meiri íslensku og mig langar líka að búa á Hvammstanga og langar ekki að flytja,“ segir Sabah. Og Aisha segir að sér líði vel á staðnum. „Fólkið hérna er mikið að hjálpa okkur. Við höfum farið í skoðunarferðir og okkur var hjálpað að fá vinnu og við að læra íslensku.“

Lykilatriði að hafa gott samfélag að baki

Þó þær segi vandamálin ekki hafa verið mörg þá hafi þetta verið mikil vinna. Rauði krossinn og stuðningsfjölskyldurnar hafa staðið þétt við bakið á hópnum sem og starfsmenn á fjölskyldusviði sveitarfélagsins. „Að hafa gott samfélag að baki svona verkefni er lykilatriði,“ segir Liljana.

Er bjartsýn á að fjölskyldurnar verði á staðnum næstu ár

Ragnheiður Jóna segist bjartsýn á að þessir nýbúar verði hjá þeim næstu árin. „Já, ég er það. Þessar fjórar fjölskyldur sem eru hérna, það er rétt að það fór ein fjölskylda, en þessar fjórar eru allar ákveðnar að vera hér áfram. Fólk er farið að stefna á nám, það er farið að kaupa sér eignir. Krakkarnir blómstra hér bæði í skóla og leikskóla og eru búnir að eignast marga vini. Þannig að ég sé í rauninni engin teikn um það að þessar fjórar fjölskyldur séu að fara.“