Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sigmundi tíðrætt um fullveldið og hælisleitendakerfið

05.06.2021 - 14:25
Mynd með færslu
 Mynd: Miðflokkurinn
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gagnrýndi ríkisstjórnina í stefnuræðu á landsþingi flokksins í dag, fyrir að fara í þveröfuga átt við hin Norðurlöndin í málefnum hælisleitenda: „Það er gert með því að allir sem fá hér hæli eða dvalarleyfi skuli eiga rétt á sömu fjárhagsaðstoð og þjónustu sama hvernig þeir koma, löglega eða ólöglega. Hvort sem þeim er boðið hingað af stjórnvöldum eða koma á vegum hættulegra glæpagengja sem taka aleiguna af fólki og senda það í hættuför.“

Hann lýsti sem fyrr áhyggjum sínum af því að glæpahópar misnotuðu hælisleitendakerfið á Íslandi og gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að „lögleiða eiturlyf og auðvelda glæpamönnum að misnota hælisleitendakerfið“ í stað þess að „bregðast við neyðarkalli lögreglunar og taka á þeirri miklu ógn við samfélagið sem skipulögð glæpastarfsemi er orðin“. 

Fullveldið sagði Sigmundur að varðveittist ekki af sjálfu sér. Flóðgáttir hefðu verið opnaðar með þriðja orkupakkanum og nú væri sá fjórði á leiðinni. Tímabært væri að endurmeta hvernig Ísland nálgast EES-samninginn og hvernig ákvæði hans væru nýtt. Næsta ríkisstjórn þyrfti því að vera í stakk búin til að verja fullveldisréttinn.

Þá sagði hann brýnt að verja frjálslyndið og koma í veg fyrir að Evrópureglugerðir, sem ekki taka mið af íslenskum aðstæðum, bærust hingað á færibandi. „Á þessu kjörtímabili hefur litlum fyrirtækjum á Íslandi verið gert að uppfylla kvaðir sem virðast sniðnar að stórum alþjóðafyrirtækjum. Í því felst mikil vinna og kostnaður sem rennur þá ekki í að hækka laun, ráða fleira fólk eða auka verðmætasköpun,“ sagði Sigmundur. Kerfi sniðið að stórfyrirtækjum drægi úr tækifærum þeirra minni og skekkti samkeppnisstöðuna. 

Sigmundur sagði að Miðflokkurinn myndi kynna tillögur um skattbreytingar: „Við þurfum hvetjandi skattkerfi. Kerfi sem refsar ekki ungu vinnandi fólki sem er að koma sér upp húsnæði og frumkvöðlum og fyrirtækjum sem skapa verðmæti fyrir samfélagið,“ sagði hann. Báknið hefði aldrei verið stærra og ríkisstjórnin hefði hækkað hin ýmsu gjöld og bætt nýjum við. Hann sagði byggðamál hafa gleymst á kjörtímabilinu; lóðaskortur viðvarandi, regluverk íþyngjandi og að nú skorti upp á „hugkvæmni“.

Hann sagði ríkisstjórnina treysta á að „vandræðagangurinn á fyrstu árum kjörtímabilsins og svikin kosningaloforð hafi gleymst“. Miðflokkurinn væri flokkur lausna, myndi reka „alvöru pólitík byggða á innihaldi frekar en tómum umbúðum“. Flokkurinn myndi berjast fyrir því sem hann teldi rétt, líka þegar það væri erfitt, og gera það sem hann segðist myndu gera.