Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hefur ekki verulegar áhyggjur af hækkun stýrivaxta

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir að þótt stýrivextir hafi hækkað lítillega sé það ekki verulegt áhyggjuefni enda séu þeir enn í sögulegu lágmarki. Hann vonar að vextir verði ekki lengi undir einu prósenti því það sé merki um hægagang í hagkerfinu. 

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentustig upp í eitt prósent í maí. Stóru bankarnir brugðust við og hækkuðu meðal annars breytilega vexti á óverðtryggðum húsnæðislánum; um 0,10 upp í 0,25 prósentustig. Verðbólga í maí mældist 4,4% miðað við síðustu tólf mánuði. Í apríl var tólf mánaða verðbólgan 4,6%. Verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5%. 

Þetta hlýtur að vera áhyggjuefni bæði fyrir stjórnvöld og ekki síst fyrir heimilin í landinu?

„Já, það er ákveðið áhyggjuefni. Hins vegar verðbólgan núna síðustu mælingar sýna að hún er aðeins að koma aftur niður. Við skulum muna sömuleiðis að vextirnir hafa sögulega aldrei verið jafn lágir. Þrátt fyrir lítils háttar hækkun á vöxtum erum við enn með vextina í stöðu í eitt prósent hjá Seðlabankanum er sko það lægsta sem við höfum séð sögulega. Þannig að þetta er ekki orðið verulegt áhyggjuefni. Það sem við viljum fá núna er fjölgun starfa. Við þurfum að sjá aukin umsvif. Og það er vonandi ekki þannig að það þurfi að vera með vexti hér við núllið eða undir einu prósenti um langt skeið vegna þess að það væri í sjálfu sér merki um mikinn hægagang í öllu hagkerfinu,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í gær, 4. júní.