Guðlaugur Þór sigrar - Sigríður ekki meðal átta efstu

05.06.2021 - 19:08
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson varð efstur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, varð í öðru sæti. Friðjón R. Friðjónsson endaði í áttunda sæti, en Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, var ekki meðal átta efstu frambjóðenda.

Kristín Edwald, formaður yfirkjörstjórnar, las lokatölur upp í beinni útsendingu á Facebook-síðu flokksins. 

Alls voru 7.208 atkvæði gild af 7.493 greiddum atkvæðum. Guðlaugur Þór hlaut 3.508 atkvæði í fyrsta sætið. Áslaug Arna hlaut 3.326 atkvæði í fyrsta sæti. Þau Guðlaugur Þór og Áslaug Arna verða að öllum líkindum oddvitar hvort í sínu Reykjavíkurkjördæminu. Næstar á eftir ráðherrunum eru þær Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs, og Hildur Sverrisdóttir. Brynjar Níelsson vermir fimmta sætið og Birgir Ármannsson það sjötta, og þeir Kjartan Magnússon og Friðjón R. Friðjónsson eru í sjöunda og áttunda sæti. 

Sigríður Á. Andersen er því dottin út af listanum yfir átta efstu frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hún sóttist eftir öðru sæti, og leiddi flokkinn í Reykjavíkurkjördæmi Suður fyrir fjórum árum.

Sjálfstæðisflokkurinn er með fimm þingmenn í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. 

Guðlaugur tók fyrstu tölum með ákveðnum fyrirvara því prófkjörið væri stórt og enn ætti eftir að telja mörg atkvæði. „Nóttin er ung.“ Áslaug Arna sagði kjörsóknina hafa verið glæsilega og benti á að oddvitasætin væru tvö; eitt í Reykjavík suður en annað í Reykjavík norður.

Fréttin var uppfærð klukkan 01:45

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV