„Ég skil ekki hvað er í gangi með mitt ónæmiskerfi"

Mynd: YouTube / YouTube

„Ég skil ekki hvað er í gangi með mitt ónæmiskerfi"

05.06.2021 - 09:00

Höfundar

Stefán Hannesson hefur slegið rækilega í gegn með Gagnamagninu að undanförnu. Hann veit ekki hvað honum á að finnast um alla athyglina og segist ekki vita hvað hann geti boðið eldheitum Eurovision-aðdáendum upp á inni á samfélagsmiðlasíðunum sínum.

Eins og frægt er orðið greindust nokkur COVID-19 smit innan íslenska Eurovision-hópsins á meðan undirbúningur fyrir keppnina stóð sem hæst. Herbergisfélagi Stefáns var einn af þeim sem greindust með COVID-19 en Stefán þakkar bólusetningu fyrir að hafa ekki veikst, enda náin sambúð í herberginu. „Ég skil ekki hvað er í gangi með mitt ónæmiskerfi. Við Jói deildum ekki bara herbergi heldur líka rúmi,” segir Stefán í þættinum Fram og til baka á Rás 2. 

Smitin í íslenska hópnum settu íslenska atriðið í uppnám og lýsir Stefán ferlinu sem tilfinningarússíbana sem hafi raunar verið gegnumgangandi frá því að keppninni var aflýst í fyrra. „Við vorum með þetta vinsæla lag í höndunum. Svo er keppninni aflýst. Fyrst þegar keppninni er aflýst vitum við ekkert hvort við séum að fara aftur næsta ár. Það var ekkert búið að taka ákvörðun um það þannig að maður var í limbó allt sumarið í fyrra. Maður er vanur tilfinningarússíbananum,” segir Stefán.

Það hafi þó verið mikill léttir að geta komist á svið á lokaæfingunni fyrir keppnina. Stefán segir að það sé vissulega svekkjandi að hafa misst af Eurovision-upplifuninni en það sé ekki hægt annað en að vera þakklátur fyrir að lenda í fjórða sæti og finna stuðning íslensku þjóðarinnar. 

Eftir Eurovision hefur Stefán þurft að venja sig við að fólk þekki hann í sjón. „Það er svona aðeins að koma núna. Ég er búinn að fá milljón skilaboð og fullt af fylgjendum á samfélagsmiðlum. Ég kann ekkert á samfélagsmiðla. Hvað á ég að gera fyrir þetta fólk? Þetta eru 90% Evrópubúar sem eru Eurovision-aðdáendur. Eurovision er búið, ég er algjört nobody,” segir Stefán.

Hann segist aldrei hafa verið neinn sérstakur Eurovision-aðdáandi, bara fylgst með keppninni eins og aðrir Íslendingar. Fyrir honum var hátíðin frábær vorboði og ástæða til að halda gott partý í maí. Þegar Daði Freyr tók fyrst þátt í undankeppninni á Íslandi 2017 mátti hann hafa fimm með sér á sviðinu. Hann valdi systur sína og kærustu. Svo bauð hann Huldu, sem hann þekkti fyrir, og loks tveimur vinum sínum, þeim Stefáni og Jóhanni. „Þetta vatt svo upp á sig og fjórum árum seinna lendum við í fjórða sæti,” segir Stefán. 

Ævintýrinu er lokið í bili og Stefán aftur mættur í kennslustofuna í FSU þar sem hann kennir íslensku og kvikmyndafræði. Hann er uppalinn á Selfossi og því lá beinast við að kenna í framhaldsskólanum þar, þeim sama og hann útskrifaðist úr. Starfið hentar honum vel og má í raun segja að Stefán sé í draumastarfinu. „Að hafa áhrif á krakka á þessum aldri. Mér finnst þetta aldursbil svo heillandi. Ekki börn, ekki alveg fullorðin. Einhvers staðar þarna á milli að finna sig í lífinu. Maður getur haft áhrif á þessa krakka. Þau eru svo skemmtileg,” segir Stefán.

Áður hafði einmitt komið fram að Stefán var íslenskukennarinn hennar Huldu sem er einnig í Gagnamagninu. „Það vildi svo skemmtilega til að fyrsta önnin mín sem kennari, var síðasta önnin hennar sem nemandi og þá lenti hún akkúrat í hóp hjá mér sem nemandi í íslensku. Það var mjög gaman að kenna henni. Mjög skrítið samt,” segir Stefán. 

Rætt var við Stefán í þættinum Fram og til baka á Rás 2. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Bjuggu til nýja Stefán og Jóa svo allir gætu verið með

Innlent

Liðsmaður Gagnamagnsins algjörlega miður sín