Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Búast við góðri kjörsókn í sameiningarkosningum í dag

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í morgun hófst kosning um sameiningu sex sveitarfélaga á Norðurlandi. Kosið er um sameiningu fjögurra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu og tveggja sveitarfélaga í Suður-Þingeyjarsýslu. Formenn samstarfsnefnda um sameiningu vonast eftir góðri þátttöku íbúa í kosningunum.

Fyrstu kjörstaðir voru opnaðir klukkan tíu í morgun og hægt verður að kjósa til tíu í kvöld þar sem lengst verður opið. Það er þó aðeins misjafnt eftir stöðum.

1.365 á kjörskrá í Austur-Húnavatnssýslu

Í Austur-Húnavatnssýslu eru samtals 1.365 á kjörskrá. Þar er kosið um sameiningu Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Sveitarfélagsins Skagastrandar og Skagabyggðar. Á Blönduósi eru 650 á kjörskrá, í Húnavatnshreppi 300, í Sveitarfélaginu Skagaströnd 345 og 70 í Skagabyggð. Viðræður um sameiningu hafa staðið með hléum frá 2017 en formlegur undirbúningur hófst í október 2019. Tæplega 1.900 íbúar yrðu í þessu sameinaða sveitarfélagi sem næði yfir rúma 4.500 ferkílómetra.

„Mikill léttir að þessarri vinnu sé lokið“

Jón Gíslason, formaður samstarfsnefndar um sameiningu, segir að dagurinn líti vel út. „Þetta er nú mikill léttir að þessarri vinnu sé lokið. Hún er búin að vera löng og mikil.“ Hann segist lélegur spámaður, en vonast eftir góðri kjörsókn. „Þetta er góður dagur og það kannski hjálpar til að kjörsóknin verði betri. Ég á hef nú trú á því að hún verði góð.“

967 á kjörskrá í Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit

Í Suður Þingeyjarsýslu er kosið um sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Þar eru 967 á kjörskrá, 659 í Þingeyjarsveit og 308 í Skútustaðahreppi. Sameinað sveitarfélag yrði landfræðilega stórt, ríflega 12.000 ferkílómetrar, en ekki ýkja fjölmennt með ríflega 1.300 íbúa. Þarna hefur formlegur undirbúningur sameiningar staðið í tvö ár - hófst í júní 2019.

Vonar að fólk mæti á kjörstað og velji sér valkost til framtíðar

Helgi Héðinsson, formaður samstarfsnefndar um sameiningu þar, segir að það sé alltaf hátíðleg stund þegar íbúar komi saman og kjósi um framtíðina. „Og nú leggjum við tillögu á borðið fyrir íbúana að taka afstöðu til. Ég á von á því að kjörsóknin verði mjög góð. Við sáum að það var hátt hlutfall sem kaus utan kjörfundar og mér hefur fundist síðustu viku eða tvær að umræðan hafi verið að aukast. Ég á von á að fólkið finni til ábyrgðar og komi og velji sér valkost til framtíðar.“