Annasamur dagur hjá björgunarsveitum um allt land

05.06.2021 - 23:48
Mynd með færslu
 Mynd: Slysavarnafélagið Landsbjörg
Dagurinn hefur verið annasamur hjá björgunarsveitum víðs vegar um landið. Snemma í kvöld voru björgunarsveitir kallaðar út vegna tveggja göngumanna í vandræðum á Fimmvörðuhálsi. Þeir náuð að hringja sjálfir í Neyðarlínuna og óska eftir aðstoð. Mennirnir voru ekki slasaðir þegar björgunarsveitir á Suðurlandi komu á vettvang, en þeir voru orðnir kaldir og blautir.

Nokkrir hópar voru sendir á Fimmvörðuháls, bæði gangandi og á snjósleðum. Um klukkan sex kom björgunarsveitarfólk að mönnunum við Heljarkamb eftir að hafa farið á jeppum og snjósleðum upp hálsinn frá Skógum. Mennirnir voru aðstoðaðir yfir Heljarkamb og upp Bröttufönn, þar sem snjósleðarnir biðu eftir þeim. Þeir fengu far á sleðunum að björgunarsveitarbílum, sem komu þeim til byggða.

Nokkuð austar var kallað eftir aðstoð björgunarsveitar vegna bíls sem var fastur í á við Hjörleifshöfða. Björgunarsveitarfólk frá Vík mætti á staðinn og kom bílnum á þurrt. Á Seyðisfirði aðstoðaði björgunarsveitarfólk bílstjóra sem hafði fest bíl sinn í snjó á Skálanesi. 

Loks þurfti að kalla út sjóbjörgunarsveitir, annars vegar í Bolungarvík og hins vegar á Húsavík. Í Bolungarvík þurfti björgunarsveitarfólk að ná í rekald sem var á floti í innsiglingunni í höfnina. Á Húsavík var læknir sendur með bát björgunarsveitarinnar til móts við veikan farþega sem var um borð í Hvalaskoðunarbát.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV