Vilja að Akureyringar haldi köttum sínum inni

04.06.2021 - 16:55
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay - Pexels
Bæjaryfirvöld á Akureyri mælast til þess að kattaeigendur haldi köttum sínum inni um nætur á varptíma fugla. Þá er fólk hvatt til að skrá ketti sína. Aðeins lítið brot af köttum á Akureyri er formlega skráð.

Tilmæli bæjaryfirvalda spretta af umræðu í samfélaginu um kattahald og þá sérstaklega um lausagöngu dýranna.

Ekki eingöngu um fuglaveiðar katta

Andri Teitsson, formaður umhverfis- og framkvæmdasviðs Akureyrar, segir að málið snúist ekki eingöngu um fuglaveiðar katta. „Umræðan er búin að standa í mörg ár og hún er víðtækari. Hún snýst ekki bara um hvort kettir veiði fugla heldur líka hávaða um nætur, óþrifnað í blómabeðum og sandkössum og að kettir fari inn um opna glugga og geri sig heimakomna og jafnvel valdi spjöllum.“

Mikilvægt að skrá alla heimilisketti

Andri segir að í umhverfis- og mannvirkjanefnd hafi verið til umræðu hvort breyta ætti reglum til að takmarka lausagöngu katta en þá einungis á varptíma.

Forsendur þess að hægt sé að setja reglur og framfylgja þeim sé að allir heimiliskettir séu skráðir hjá bænum. Skráningum sé mjög ábótavant og aðeins lítið brot katta á skrá þó að það sé skylda. Því hefur kattaeigendum staðið til boða að skrá dýr sín hjá Akureyrarbæ sér að kostnaðarlausu frá janúarbyrjun þessa árs og út júní.

Lausaganga er þegar bönnuð innan sveitarfélagsins

Fordæmi eru fyrir því í sveitarfélaginu að lausaganga katta sé alfarið bönnuð. Í Hrísey er köttum ekki leyft að ganga lausum. Í Grímsey eru kettir bannaðir með öllu og fær enginn þeirra að setja loppu á eyna. Það sé hins vegar ekki endilega markmiðið með þessum tilmælum nú á Akureyri.

Markmið með skráningu ekki að beita viðurlögum

Markmiðið sé ekki að beita viðurlögum. „Ég hef sjálfur ekki trú á að það þyrfti að framfylgja svona reglum mikið á Akureyri ef það væri bann við lausagöngu í tvo mánuði. Ég reikna með að meginþorri kattaeigenda myndi virða það. Ég hef ekki trú á að við yrðum með kattafangara hlaupandi um allan bæ.“