Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segja alheimsfyrirtækjaskatt innan seilingar

04.06.2021 - 10:52
Efnahagsmál · Erlent · Bandaríkin · Bretland · Frakkland · G7 · Ítalía · OECD · Spánn · Þýskaland
epa09246802 British Chancellor of the Exchequer Rishi Sunak (2-R) welcomes G7 Finance Ministers to Lancaster House during the G7 Finance Ministers meeting in London, Britain, 04 June 2021. British Chancellor Sunak will host G-7 Finance ministers and Central bank chiefs, ahead of the main G7 summit scheduled for 11- 13 June 2021.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Samkomulag G7-ríkjanna um alheimsfyrirtækjaskatt er innan seilingar. Þetta segja fjármálaráðherrar Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Spánar í grein sem birt er í breska blaðinu Guardian í dag.

Ráðherrarnir fjórir segja að ríkin hafi unnið að tillögum um alþjóðlegt skattkerfi í nokkur ár. Það var þó ekki fyrr en með nýrri ríkisstjórn í Bandaríkjunum sem skriður komst á málið. 

Samkomulaginu er ætlað að hamla gegn því að alþjóðleg stórfyrirtæki sleppi undan fyrirtækjasköttum í þeim ríkjum þar sem hagnaður þeirra verður til með því að koma sér upp fyrirtækjum í lágskattaríkjum.

Víst má telja að tillögurnar verði til umræðu á fundi leiðtoga G7-ríkjanna í Bretlandi um næstu helgi.

Til höfuðs lágskattaríkjum

Hugmyndirnar ganga út á að sett verði lágmarksprósenta á fyrirtækjaskatt á heimsvísu og hefur hlutfall á bilinu 15 til 21 prósent verið nefnt í því skyni. Sé fyrirtæki með dótturfélag í landi þar sem skatthlutfall er undir alheimslágmarkinu munu ríki geta krafið fyrirtækið um greiðslu mismunarins á skattgreiðslunum og alheimslágmarkinu. Með því yrði hvatinn til að innheimta fyrirtækjaskatt undir lágmarkinu úr sögunni.

Hugmyndirnar hafa mætt efasemdum ríkja sem byggja skattkerfi sitt á því að laða til sín alþjóðleg stórfyrirtæki með lágum fyrirtækjasköttum. Þannig hafa írsk stjórnvöld hvatt til þess að skattprósentan verði ekki hærri en 12,5% sem er núgildandi fyrirtækjaskattur í landinu.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV