Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nýr fríverslunarsamningur við Bretland

04.06.2021 - 11:00
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Ísland og EFTA-ríkin Noregur og Liechtenstein hafa náð samkomulagi við bresk stjórnvöld um nýjan fríverslunarsamning. Utanríkisráðherrar landanna koma saman til fjarfundar í hádeginu til að staðfesta samkomulagið.

Samningurinn veitir gagnkvæman aðgang að mörkuðum þegar kemur að vöru- og þjónustuviðskiptum og opinberum innkaupum. Samningaviðræður um fríverslunarsamning hófust formlega í september á síðasta ári en bráðabirgðasamningur hefur verið í gildi frá áramótum til að bregðast við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Haft er eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra að samningurinn hafi verið forgangsmál í hans ráðherratíð.

„Ég hef lagt mikla áherslu á að tryggja gott framtíðarsamband við Bretland eftir útgönguna úr Evrópusambandinu og ég er sannfærður um að þessi samningur muni styrkja efnahags- og vinatengsl Íslands og Bretlands um ókomna tíð,“ segir Guðlaugur Þór.

Þá eru í samningnum metnaðarfullar skuldbindingar á sviði umhverfisverndar og baráttu gegn hlýnun jarðar auk skuldbindinga á sviði vinnuréttar. Þar er jafnframt að finna sérstakan kafla um jafnréttismál og valdeflingu kvenna í viðskiptum. Er þetta í fyrsta skipti sem slík ákvæði er að finna í fríverslunarsamningi sem Ísland gerir.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV