Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ný tegund malaríulyfs vinnur samkeppni Háskóla Íslands

Full sprauta með sprautunál.
 Mynd: Gesine Kuhlmann - RGBStock
Nýtt lyfjaform gegn malaríu fyrir börn bar sigur úr býtum í Vísinda- og nýsköpunarverðlaunakeppni Háskóla Íslands. Í verkefninu var þróað nýtt lyfjaform sem gerir að verkum að ekki þarf hjúkrunarfræðinga til að gefa lyfið á sjúkrahúsum heldur heldur er á færi ófaglærðra að gera það.

Hefðbundin lyf sem börnum eru gefin við malaríu eru tvískipt. Annars vegar stungulyf og hins vegar töflur. Í nýsköpunarverkefninu var lyfið leyst upp í svokölluðu klysma, svo hægt er að gefa það sem vökva í endaþarm. Ekkert slíkt lyf við malaríu er á markaði. Ætlunin er að lyfið fari í klínískar prófanir í haust.

Á tveggja mínútna frestu deyr barn úr malaríu sunnan Sahara í Afríku. Við mat á verkefninu var horft sérstaklega til þeirra jákvæðu áhrifa sem lyfjaformið gæti haft á þennan skæða sjúkdóm. Dómnefndin taldi að markmið verkefnisins væri háleitt og göfugt og félli vel að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

„Verkefnið er gott dæmi um öflugt samstarf innan skólans og við erlenda sérfræðinga og stofnanir,“ segir í umsögn dómnefndar.

Verkefnið unnu Sveinbjörn Gizurarson, prófessor í lyfjafræði, Ellen K. G. Mhango, doktorsnemi í lyfjafræði, Bergþóra S. Snorradóttir, lektor í lyfjafræði, og Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, lektor í efnafræði. Þau unnu í samstarfi við Baxter Kachingwe við Háskólann í Malaví og Peter Ehizibue Olumese frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni.

Höfundur er meistaranemi í blaða- og fréttamennsku í starfsnámi á fréttastofu RÚV.