Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Notkun ADHD-lyfja hefur aukist mikið

04.06.2021 - 14:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Umtalsverð aukning hefur orðið á notkun ADHD-lyfja hér á landi frá 2010. Greint er frá þessari þróun í Talnabrunni, nýjasta fréttabréfi landlæknis. Í flestum tilvikum er gefið lyfið metýlfenidat sem telst til örvandi lyfja. Heildarfjöldi barna sem fékk lyfinu ávísað tvöfaldaðist á tímabilinu 2010 til 2019 en heildarfjöldi fullorðinna hefur rúmlega þrefaldast. Þetta kemur fram í úttekt embættis landlæknis sem gerð var 2020.

Einnig er vakin athygli á þeirri miklu fjölgun sem hefur orðið á ávísunum ADHD-lyfja frá 2019, bæði til barna og fullorðinna. Alls fengu 13.696 einstaklingar ávísað metýlfenidati á síðasta ári. Þar á meðal var hlutfall barna töluvert hærra en fullorðinna eða 67 af hverjum 1.000 íbúum. Það samsvarar 12 prósent aukningu frá fyrra ári. 

Mest hefur hlutfallsleg fjölgun síðastliðin tvö ár verið meðal kvenna á miðjum aldri. Karlar eru þó enn meiri hluti notenda á heildina litið vegna þess fjölda drengja á aldrinum 10-14 ára sem nota lyfin.