Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mæla ekki með bólusetningu við COVID-19 á meðgöngu

04.06.2021 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landlæknisembættið mælir ekki með því að barnshafandi konur þiggi bólusetningu við COVID-19 nema þær séu í sérstökum áhættuhópi. Þetta segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, verkefnisstjóri hjá embættinu.

Mæla ekki með bólusetningu en banna hana ekki

„Það er ekki bannað, þær geta þegið bólusetningu þegar þær fá boð. En við mælum ekki almennt með því af því að það er enn verið að safna upplýsingum. Við teljum þó að mRNA-bóluefnin, sem er langmest búið að nota í þungun, hafi ekki neinar alvarlegar afleiðingar fyrir barnshafandi konur. En það er ekki svo mikill gangur í faraldrinum hér að við teljum verjandi að mæla með bólusetningu allra barnshafandi kvenna,“ segir hún. 

Konur almennt ekki bólusettar á meðgöngu

Kamilla segir að leiðbeiningarnar séu svipaðar og fyrir flest önnur bóluefni á meðgöngu, að undanskilinni inflúensubólusetningu og kíghóstabólusetningu. Þungaðar konur séu í sérstakri hættu á að fá slæma inflúensusýkingu, og kíghóstabólusetning sé ekki síst hugsuð til að verja barnið. „Það eru ekki meðmæli með öðrum bólusetningum á meðgöngu, nema það sé mjög knýjandi ástæða,“ segir hún. 

Ástæðan fyrir því að barnshafandi konum er almennt ráðlagt að forðast bólusetningu sé meðal annars sú að henni geti fylgt aukaverkanir á borð við háan hita, og ekki sé ráðlegt að taka hitalækkandi lyf í miklu magni á meðgöngu. 

„Það er alltaf mælt með því að gera ekkert sem eykur líkurnar á því að maður þurfi að nota lyf á meðgöngu,“ segir hún. Til dæmis sé stundum mælt alfarið gegn því að konur noti íbúfen á seinni hluta meðgöngu. 

Annað getur átt við um konur í áhættuhópum

Kamilla segir að embættið mæli þó ekki gegn því að konur með sérstaka undirliggjandi áhættuþætti, og þær sem eru líklegar til að vera útsettar fyrir sjúkdómnum, séu bólusettar en þá sé best að bólusetja á öðrum eða þriðja þriðjungi meðgöngunnar. „Við mælum gegn því að það sé gert á fyrsta þriðjungi meðgöngu,“ segir hún. 

„Og konur sem eru mjög áhyggjufullar eða sjá fyrir sér að þær séu í aukinni hættu á útsetningu sem við höfum ekki skilgreint, vegna heilbrigðisstarfs eða undirliggjandi sjúkdóma, þær geta farið í bólusetningu. En við mælum ekki almennt með því,“ bætir hún við. 

Mismunandi leiðbeiningar eftir löndum

Bresk heilbrigðisyfirvöld mæla ekki gegn bólusetningu barnshafandi kvenna. Í þeirra leiðbeiningum segir að þær séu í aukinni hættu á að veikjast alvarlega, fái þær COVID-19, og að sýking auki líkur á fyrirburafæðingu. Yfir 100 þúsund barnshafandi konur í Bandaríkjunum hafa nú þegar verið bólusettar og í sumum löndum eru þær skilgreindar í forgangshóp fyrir bólusetningu.

Kamilla segir að heilbrigðisyfirvöld hér á landi efist ekki um upplýsingar frá öðrum löndum en að hér á landi viti hún ekki dæmi þess að barnshafandi konur hafi sýkst alvarlega eða sýking haft hættuleg áhrif á meðgönguna. „En ef faraldurinn væri í hræðilegum gangi hjá okkur, þá myndum við mögulega útvíkka bólusetningar til allra barnshafandi kvenna,“ segir hún, rétt eins og barnshafandi konur sem séu að fara á svæði þar sem stífkrampi er í mikilli dreifingu geti fengið stífkrampabólusetningu. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV