Hvergerðingar búnir að fá nóg af orlofi húsmæðra

04.06.2021 - 21:46
Mynd með færslu
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri í Hveragerði. Mynd: RÚV
Bæjarráð Hvergerðinga samþykkti á fundi sínum í gær harðorða bókun um húsmæðraorlof þar sem þingheimur er tekinn til bæna og furðu lýst á þessari „undarlegu tímaskekkju“ eins og það er kallað. Hveragerðisbæ er gert að greiða um 334 þúsund krónur til orlofsnefndar í Árnes-og Rangárvallasýslu á þessu ári.

Tilefnið fyrir bókun bæjarráðs er bréfi orlofsnefndar til bæjaryfirvalda þar sem farið er yfir stöðu mála. Þar kemur fram að búið hafi verið að skipuleggja orlofsferð fyrstu vikuna í nóvember á síðasta ári.

Hótel Örk varð fyrir valinu, búið var að skipuleggja dagskrá og 80 konur höfðu skráð sig. En líkt og flest annað var orlofið fellt niður vegna kórónuveirufaraldursins. 

Í bréfinu segir að konurnar hafi getað valið um að fá annað hvort endurgreitt eða inneign fyrir ferð á þessu ári. 42 konur ákváðu að eiga gjaldið inni og eiga því öruggt sæti í ferðina í haust. Hún verður á Hótel Örk fyrstu vikuna í október.

Með bréfi nefndarinnar fylgir síðan yfirlit um hvað hvert sveitarfélag greiðir og framlag Hveragerðisbæjar er 330 þúsund krónur.

Bæjarráð sveitarfélagsins leyndi ekki vanþóknun sinni í bókun. „Bæjarráð ítrekar fjölmargar fyrri bókanir bæjarráðs um þá undarlegu tímaskekkju sem orlofsferðir sem þessar eru,“ segir bæjarráð og bætir við að tregða löggjafarvaldsins til að afnema orlof húsmæðra „er fyrir löngu orðin algjörlega óskiljanleg.“

Bæjarráð lýsir furðu sinni á því að frumvarp um afnám orlofsins skuli ekki enn hafa orðið að lögum en það var lagt fram í mars 2017. „Það er furðuleg tímaskekkja að upplifa þá mismunun milli kynja sem þessi löggjöf felur í sér.“

Þá segir bæjarráð að ekki sé heldur fylgst með fjárhagslegri stöðu þeirra sem þiggja umrædda ferðapeninga „Að sveitarfélög séu skylduð til að greiða fyrir skemmtiferðir, mögulega mjög velstæðra kvenna, með fjármunum almennings er með öllu ólíðandi.“

Bæjarráð hvetur því þingmenn til að endurflytja frumvarpið og „leggja þar með af þetta löngu úrelda fyrirkomulag.“

Skiptar skoðanir voru um frumvarpið þegar það var lagt fram á sínum tíma. Kvenfélagssambönd og orlofsnefndir mótmæltu því og sögðu húsmæðraorlofið gagnast mörgum heimavinnandi konum sem ekki ættu aðra möguleika á orlofi. Því væri verið að ráðast á garðinn þar sem hann væri lægstur.

Sveitarfélög sögðu þetta hins vegar tímaskekkju og í hróplegu ósamræmi við jafnréttisáherslur. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV