Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hraun komið yfir leiðina upp á „Gónhól“

Mynd með færslu
 Mynd: Hlynur Þorsteinsson - Aðsend mynd
Gönguleiðin að vinsælasta útsýnisstaðnum yfir eldgosið við Fagradalsfjall lokaðist snemma í morgun. Leiðinni var reyndar lokað í öryggisskyni um síðustu helgi þar sem hraun var komið hættulega nærri gönguleiðinni. Sumir hafa þó virt lokunina að vettugi síðustu daga. Á meðfylgjandi mynd, sem Hlynur Þorsteinsson tók um klukkan sjö í morgun, má sjá að hraunið er komið yfir gönguleiðina upp á fellið, sem fékk viðurnefndið Gónhóll eftir að eldgosið hófst.

Hjálmar Hallgrímsson, lögreglumaður í Grindavík, segist hafa fengið tilkynningu á níunda tímanum í morgun um að hraun hefði runnið yfir gönguleiðina. Með því fékk hann myndir sem sýndu nýja stöðu.

Þoka er við eldstöðvarnar og fáir á ferli, enginn var innan lokunar, svo vitað væri, þegar hraunið rann fram. 

„Gónhóll“ hefur verið vinsæll viðkomustaður fólks sem fór að skoða eldgosið, sérstaklega eftir að hraunið byrjaði að fylla upp í dalina í kring. Því var lokað um síðustu helgi og nú kemst enginn fótgangandi þangað upp.