Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gæti haft mikil áhrif á kjör heimila og fyrirtækja

Mynd með færslu
 Mynd: RUV/Freyr - RUV
Miklar hækkanir á byggingavörumarkaði auka hættuna á því að verðbólga hækki enn frekar og að Seðlabankinn bregðist við með hækkun stýrivaxta. Slík hækkun kæmi afar illa við fyrirtæki og heimili á versta mögulega tíma að mati aðalhagfræðings Samtaka iðnaðarins.

Hrávara á heimsmarkaði hefur hækkað mikið undanfarið, þar með talið verð á helstu efnum til byggingagerðar. Hefur hækkunin verið einkar mikil á stáli og timbri. Áhrifin ná yfir byggingamarkaðinn eins og hann leggur sig og er von á miklum hækkunum á næstunni, bæði hjá birgjum og verktökum.

Þær hækkanir hafa svo áhrif á verðbólgu sem hefur verið vel yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans á þessu ári. „Við höfum séð miklar launahækkanir hér innanlands og húsnæðisverðið hefur verið að hækka og núna eru áhrif af gengislækkun krónunnar líka að koma fram í þessari verðbólgu sem við sjáum núna standa í einhverjum fjórum prósentum.“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins.

Fari svo að verðbólgan verði enn meiri gæti Seðlabankinn þurft að bregðast við með hækkun stýrivaxta, jafnvel þótt hækkun á hrávörumarkaði sé utan áhrifasviðs Seðlabankans. Sú vaxtahækkun kæmi á versta tíma fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. „Við erum með hagkerfi sem er í miklum slaka, atvinnuleysi er umtalsvert og við þurfum að beita tækinu til þess að skapa hér hagvöxt og störf. En þetta er aðeins að koma í hliðina á okkur og gerir það að verkum að hugsanlega er ekki hægt að beita stýrivöxtunum með jafn virkum hætti og hefði þurft til þess að örva efnahagslífið.“