Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fullbólusettir fá græna passann í næstu viku

04.06.2021 - 15:58
Mynd: TourismReview / TourismReview
Þeir sem eru fullbólusettir geta í næstu viku sótt græna passann eða strikamerkt vottorð upp á að þeir séu fullbólusettir. Passinn getur auðveldað ferðalög þeirra til að minnsta kosti14 landa á Evrópska efnahagssvæðinu.

Landamæraverðir eru nú að drukkna í alls konar vottorðum sem flugfarþegar koma með hingað til lands um að þeir séu fullbólusettir eða hafai fengið COVID. Í nokkurn tíma hefur verið unnið að því að koma á samræmdu vottorði innan Evrópusambandsins eða á Evrópska efnahagssvæðinu.

„Í næstu viku verður farið að gefa út þessi vottorð hér, sem fólk getur sótt í Heilsuveru. Þau verða með svokölluðum QR-kóða sem hægt er að láta skanna í öðrum löndum,“ segir Ingi Steinar Ingason, verkefnastjóri hjá Landlæknisembættinu .

Ísland tekur nú þátt í tilraunaverkefni sem nær til 15 landa. Ingi Steinar segir að stefnt sé að því að passinn eða vottorðið taki formlega gildi á öllu Evrópska efnahagssvæðinu 1. júlí. Þá verði gefin út reglugerð um notkun þess og tilgang.

„Það sem aðallega er verið að horfa á svona til framtíðar er að það verði hægt að staðfesta þessi vottorð hjá flugfélögunum áður en maður fer í loftið. Þá eiga farþegar að vera fullvissir um að allt sé í lagi áður en þeir fara í flugið. Það á ekkert að þurfa að vera að sýna þetta vottorð eftir það. Það er markmiðið með þessu verkefni,“ segir Ingi Steinar. Hann ítrekar að ferðamenn verði að kynna sér vel reglur í viðkomandi löndum. Það að hafa passann upp á vasann tryggi ekki endilega að ferðamenn sleppi við að fara til dæmis í sóttkví.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Ingi Steinar Ingason

Byrjað að skanna passann á landamærunum

Álagið á landamærunum núna felst meðal annars í því að landamæraverðir eru að rýna í hin og þessi vottorð sem tekur tíma. Síðastliðinn miðvikudag var byrjað að skanna vottorð farþega sem hingað koma og sem fullbólusettir Íslendingar geta fengið í næstu viku.

„Það kom okkur á óvart að á fyrstu klukkutímunum voru 16 farþegar með strikamerkt vottorð. Þetta þýðir að það tekur  um 10 til 15 sekúndur að skanna vottorðið í stað tveggja til þriggja mínúta þegar tekið er við óstöðluðum pappírum. Þetta sparar okkur mikinn tíma,“ segir Steinar Ingi.

Græni passinn sem verður aðgengilegur í næstu viku inniheldur líka upplýsingar um að viðkomandi hafi fengið COVID og hafi tekið neikvætt PCR-próf.

Hlusta má á viðtalið við Inga Steinar í spilaranum hér að ofan.