Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Almennilegir atvinnurekendur ekki í vanda með ráðningar

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Forseti Alþýðusambands Íslands segir umræðu um að atvinnulaust fólk hafni vinnu lið í áróðri sem miðar að því að skerða bætur og neyða atvinnulaust fólk í hvaða vinnu sem er. Í föstudagspistli skrifar Drífa að með því sé reynt að „svelta fólk út á óviðunandi vinnumarkað“. Einhverjir atvinnurekendur telji sig þannig geta fengið ódýrara vinnuafl en ella.

Ýmsar eðlilegar ástæður til að hafna vinnu

„En þetta er mikil skammsýni. Ástæða þess að fólk tekur ekki vinnu geta verið margvíslegar, þar má nefna staðsetningu, vinnutíma, álag, öryggi og fjölskylduaðstæður. Það er engum greiði gerður með því að vanda ekki til ráðninga, hvorki atvinnuleitendum né atvinnurekendum,“ skrifar Drífa. Það sé ljóst að almennilegir atvinnurekendur séu ekki í neinum vandræðum með að fá fólk til starfa. 

Síðustu daga og vikur hefur farið fram umræða um að fólk á atvinnuleysisbótum hafni vinnu. Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar sagði í Kastljósi í síðustu viku að fyrirtækjum í ferðaþjónustu gengi illa að ráða til sín fólk af atvinnuleysisbótum og yfir 350 manns misstu rétt til atvinnuleysisbóta fyrir að hafna vinnu frá byrjun mars og til loka maí. Friðrik Jónsson, formaður BHM, svaraði ummælunum á þann veg að umræða um að atvinnulausir höfnuðu boði um vinnu yrði að byggja á staðreyndum og að ýjað hefði verið að því að bæturnar væru vandamál. Fyrr í vikunni gaf hagfræðideild Landsbankans það svo út að hún teldi ólíklegt að upphæð atvinnubóta aftraði því að fólk tæki vinnu. 

Óttast skert réttindi og tekur Play sem dæmi

Drífa gagnrýnir stjórnvöld fyrir að hafa ekki séð til þess að tíminn í faraldrinum væri nýttur til þess að bæta starfsumhverfi í ferðaþjónustu. Hún vísar í áherslur ASÍ um endurreisn ferðaþjónustunnar: „Þar var hvatning til að auka menntun starfsfólks í greininni, uppræta brotastarfsemi í ferðaþjónustu og til að ná sátt um að greidd skuli sanngjörn laun fyrir störf í greininni.“ Hún gagnrýnir sérstaklega að í stefnumótun stjórnvalda sé hvergi vikið að starfsfólki í ferðaþjónustu. 

Í ljósi þessa óttast Drífa að gerviverktaka færist í aukana, laun lækki og réttindi launafólks skerðist: „Skýrustu dæmin sjáum við í fordæmalausri framgöngu Play í tengslum við kjarasamninga og öðrum tilraunum til sniðgöngu á stéttarfélögum og þeim réttindum sem áunnist hafa síðustu áratugi með baráttu vinnandi fólks.“