Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Töluvert ódýrara að nýskrá hunda í Reykjavík

03.06.2021 - 10:51
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: Milly Eaton - Pexels
Gjald fyrir nýskráningu hunda var í gær lækkað umtalsvert í Reykjavík. Gjaldið er nú 11.900 krónur, en var áður 20.800.

Þetta var samþykkt á borgarstjórnarfundi á dögunum.

Breytingin á gjaldskránni er tilraunaverkefni til þriggja ára. Markmiðið með verkefninu er að stemma stigu við mikilli fækkun skráðra hunda sem orðið hefur síðustu ár.

Heildarkostnaður fyrir þjálfaða hunda nú 6.900 krónur

Eins og áður verður boðinn afsláttur af gjöldum ef hundurinn hefur lokið hlýðninámskeiðum. Áður var afslátturinn 50% en verður 30% eftir breytingu, sem þýðir að heildarkostnaður fyrir nýskráningu þjálfaðra hunda fer niður í 6.900 krónur.

Skráning á einnig að vera skilvirkari nú en áður. Ekki þarf lengur að skila gögnum á pappírsformi heldur þarf einungis skrá hundinn rafrænt á Ísland.is.

Höfundur er meistaranemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands í starfsnámi á fréttastofu RÚV.