Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Telur ekki að gagnaleki hafi spillt rannsókn

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Lögregla skoðar nú hvernig viðkvæm gögn í rannsókn á skipulagðri glæpastarfsemi bárust í hendur sakborninga. Ekki er talið að lekinn hafi skaðað rannsókn málsins.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur um nokkurra mánaða skeið rannsakað umfangsmikla skipulagða glæpastarfsemi þar sem meðal annars eru til rannsóknar fíkniefnaviðskipti og peningaþvætti.

Stöð 2 greindi í gær frá því að viðkvæmum gögnum hefði verið lekið til sakborninga í málinu.

Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn, segir í samtali við fréttastofu að lögreglan hafi nú til skoðunar hvernig gögnin láku út, hvert þau fóru og hvenær. Margeir segist ekki telja að gögnin hafi lekið frá lögreglunni og að ólíklegt sé að lekinn hafi spillt rannsókn málsins. Margeir telur að fyrst og fremst séu þetta gögn er varða afléttingu bankaleyndar.

Auk lögreglunnar hafa dómstólarnir og bankarnir gögn sem þessi undir höndum, en um þau á að ríkja algjör trúnaður. Fréttastofa Stöðvar 2 hefur gögnin einnig undir höndum og Margeir segir að fundað hafi verið með fréttamönnunum vegna málsins.

Verði málið tekið til rannsóknar verður sú rannsókn í höndum héraðssaksóknara.

Magnús Geir Eyjólfsson