Sjómenn að farast úr spennu eftir langa veisluþurrð

03.06.2021 - 12:21
Sjómannadagurinn í Neskaupstað
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Misjafnt er eftir sveitarfélögum hvort sjómannadagurinn verður haldin hátíðlegur um helgina. Búið er að aflýsa Hátíð hafsins í Reykjavík á meðan sjómenn á Ólafsfirði eru að farast úr spenningi yfir hátíðarhöldum helgarinnar.

Hátíðir víða með lágstemdum hætti

Sjómannadagurinn verður haldin hátíðlegur víða um land um helgina. Vegna samkomutakmarkana verða hátíðarhöld þó víða með breyttu sniði. Búið er að aflýsa Hátíð hafsins í Reykjavík og Sjóaranum síkáta í Grindavík. Þar ætla bæjarbúar samt sem áður að gera sér glaðan dag. Í Bolungarvík, á Akureyri, Eskifirði, í Neskaupstað og Vestmannaeyjum er haldið upp á daginn en víða með öllu lágstemmdari hætti en áður.

Allt gert í samráði við almannavarnir

Á Ólafsfirði er hins vegar búið að slá til þriggja daga veislu með fjölda skemmtikrafta sem lýkur með árshátíð sjómanna í íþróttahúsinu á sunnudag. Þar er Aðalbjörn Frímannsson einn skipuleggjanda. „Það gengur bara mjög vel, það er mikil aðsókn í allt hjá okkur og fólk bara gríðarlega jákvætt þótt þetta sé mjög stuttur tími,"  segir Aðalbjörn. 

En er ekkert flókið að halda svona hátíð með þeim takmörkunum sem að nú eru í gildi?

„Jú það er mikil vinna en það hefur allt verið gert í samráði við almannavarnir."

Þannig að þið hofið bara bjartsýn á helgina?

„Gríðarlega, það eru allir að farast úr spennu, við erum búin að vera innilokuð í eitt og hálft ár sko"