Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Guðlaugur kvartar undan Áslaugu til yfirkjörstjórnar

03.06.2021 - 17:31
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Umboðsmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík telur að framboð Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur hafi brotið prófkjörsreglur flokksins og hefur sent formlega kvörtun til yfirkjörstjórnar. Bæði berjast þau um oddvitasæti flokksins í Reykjavík fyrir komandi alþingiskosningar.

„Ég sendi fyrr í dag athugasemdir við framkvæmd prófkjörsins. Við höfum fengið ábendingar um að það væri aðstöðumunur á milli frambjóðenda. Við komumst að snoðir um að aðilar á vegum framboðs Áslaugar hefðu aðgang að félagaskrá flokksins,“ segir Sigurður Helgi Birgisson umboðsmaður framboðs Guðlaugs Þórs. Kvörtunin er einnig send í nafni Diljár Mistar Einarsdóttur aðstoðarkonu Guðlaugs sem býður sig fram í 3. sæti í prófkjörinu. Fréttablaðið greindi fyrst frá.

Félagaskrá flokksins er uppfærð reglulega og inniheldur upplýsingar sem ekki er hægt að finna í kjörskrá.

„Við skildum ekki hvernig einstaklingar sem voru nýbúnir að skrá sig í flokkinn væru að fá hringingar frá framboði Áslaugar,“ segir Sigurður Helgi.

Sigurður segist hafa fengið það staðfest að Magnús Sigurbjörnsson bróðir Áslaugar hafi haft aðgang að félagaskrá flokksins en nú sé búið að loka á þann aðgang.

„Þetta er eitthvað sem krefst skoðunar. Við gengum ekki svo langt að senda inn kæru. Þetta kemur ekki bara okkar framboði við heldur hefur líka áhrif á aðra frambjóðendur. Við erum að fara fram á að yfirkjörstjórn og framkvæmdastjórn flokksins fari yfir málið og kanni hvort það sé tilefni til þess að rannsaka þetta frekar og upplýsi jafnframt aðra frambjóðendur um þennan aðstöðumun. Svo getur þetta líka varðað við lög um persónuvernd,“ segir Sigurður Helgi.

Þrettán frambjóðendur taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Kosning hefst á morgun og lýkur á laugardag. 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV