Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vel yfir þúsund störf samhliða auknum umsvifum

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Vel yfir þúsund störf hafa skapast samhliða auknum umsvifum á Keflavíkurflugvelli. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ segir marga bíða eftir að komast í störfin sín á flugvellinum en ekki komist allir að í sumar.

Flugferðum til og frá landinu fjölgar ört og í gær lentu 17 vélar á Keflavíkurflugvelli. Sú tala á bara eftir að hækka þegar líður á sumarið því vel á annan tug flugfélaga, hið minnsta, fljúga hingað til lands í sumar. Aukin umsvif kalla á fleira starfsfólk og vel yfir þúsund störf hafa þegar skapast frá áramótum.

Fréttablaðið greindi í dag frá því að Icelandair hefði ráðið 800 manns og verða þeir enn fleiri þegar líður á sumarið. Sömu sögu er að segja af öðrum fyrirtækjum sem starfa í kringum alþjóðaflug. Airport Associates, sem þjónustar stóran hluta þeirra flugfélaga sem hingað fljúga, hefur bætt við sig allt að hundrað starfsmönnum frá því í janúar og þeim verður fjölgað þegar líður á sumarið. Play, sem ætlar að hefja sig til lofts í lok mánaðar, hefur þegar ráðið nokkra tugi í vinnu og stefnir á að hafa 150 manns í vinnu í lok sumars.

Einnig hefur stöðugildum hjá Isavia, þar með talið dótturfélögum, fjölgað um 96 frá því í febrúar. Þá eru ótalin störf í verslunum í flugstöð Leifs Eiríkssonar og annarri starfsemi í kringum flugvöllinn.

Margir bíða eftir gamla starfinu sínu

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segist vel finna fyrir þessum auknu umsvifum. „Svo eru að fara í gang núna verklegar framkvæmdir líka sem að við fögnum og það munar um hvert starf. Það voru nokkur þúsund manns á atvinnuleysisskrá þegar mest lét fyrr í vetur og snemma í vor en nú sem betur fer fækkar í þeim hópi og við erum afar ánægð með það.“

Atvinnuleysi í Reykjanesbæ var 24,5 prósent um áramót en var komið niður í 21,6 prósent í apríl. Kjartan vonast til að sú tala lækki hratt á næstu misserum. Enn sé á atvinnuleysisskrá fólk sem vann lengi á flugvellinum, við störf sem krefjast sérþekkingar. „Við vitum að margt af þessu fólki er að bíða eftir starfinu sínu, gamla starfinu sínu. Vill bara komast í það aftur og við vonum að það gangi eftir þannig. En það verður náttúrlega ekki þannig í sumar að það fái allir vinnu sem voru að vinna einhvern tímann upp á flugvelli. Það verður ekki þannig núna en þetta gerist vonandi á næstu tveimur, þremur eða fjórum árum.“

Magnús Geir Eyjólfsson