Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Veggjald yfir Kjöl gæti þurft að vera 10-20 þúsund

02.06.2021 - 09:11
Skyggnuhulstur 1G
Umferðarmerki.
Á Kjalvegi, skammt fyrir ofan Gulfoss
 Mynd: Vegagerðin - RÚV / Vegagerðin
Ef Kjalvegur yrði byggður upp á vegum einkafyrirtækis en ekki ríkisins gæti veggjald þurft að vera tíu til tuttugu þúsund krónur svo hægt sé að greiða framkvæmdina niður á 20 árum. 

Þetta kemur fram í umsögn Vegagerðarinnar um þingsályktunartillögu um endurnýjun Kjalvegar með einkaframkvæmd.

Endurnýjun Kjalvegar er ekki á dagskrá í samgönguáætlun sem gildir til 2034. Vegagerðin hefur byggt hluta vegarins upp í áföngum en Skipulagsstofnun hefur krafist þess að umhverfisáhrif verði metin heildstætt en ekki í bútum og því hafa frekari áform verið stöðvuð.

Í umsögn Vegagerðarinnar kemur fram að stofnunin telji tímabært að Kjalvegur fái fjárveitingu samkvæmt samgönguáætlun. Vegagerðin segist ekki taka afstöðu til þess hvort endurnýjun hans verður einkaframkvæmd en ítarlegar greiningar þyrfti að gera til að meta það.

„Miðað við varlegar forsendur um kostnað og mögulega umferðaraukningu þá gæti veggjald þurft að vera á bilinu 10-20.000 kr. til að greiða niður framkvæmdina á 20 árum,“ segir í umsögn Vegagerðarinnar.