Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Slökkt á annarri túrbínu Reykjanesvirkjunar

02.06.2021 - 07:48
Mynd með færslu
Reykjanesvirkjun. Mynd úr safni. Mynd:
Slökkt var á annarri túrbínu Reykjanesvirkjunar á mánudag þegar starfsmenn urðu varir við óeðlilegan titring í henni. Frá þessu er greint í ViðskiptaMogganum í dag. Þar segir að grunur leiki á að túrbínublöð hafi beyglast eða skemmst. Ekki hefur tekist að sannreyna það ennþá.

Viðgerð gæti tekið tvær eða þrjár vikur. Ef það þarf að skipta um túrbínu eða ráðast í meiri háttar lagfæringar gæti það tekið einhverja mánuði. Blaðið hefur eftir Jóhanni Snorra Sigurbergssyni, forstöðumanni viðskiptaþróunar hjá HS orku, að það komi í ljós á næstu dögum hversu alvarleg bilunin er. Þar segir jafnframt að ekki hafi þurft að grípa til skerðinga á þjónustu HS orku við álverið á Grundartanga, stærsta raforkukaupanda sinn, vegna samninga við Orku náttúrunnar.