Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ódýrara fyrir samfélagið að draga úr ójöfnuði

Ávextir og vítamín, fæðurbótarefni eða lyf.
 Mynd: Pixabay
Mikill munur er á heilsu og lifnaðarháttum milli þjóðfélagshópa hér á landi samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar á vegum embættis Landlæknis. Menntun og fjárhagsleg afkoma hefur þar mikil áhrif en stofnunum samfélagsins ber að bregðast hratt við að mati skýrsluhöfunda.

Þetta eru niðurstöður rannsóknarinnar Heilsa og líðan Íslendinga en vísbendingar eru um að ójöfnuður hafi aukist milli áranna 2012 og 2017. Skýrslan var unnin eftir hvatningu Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

Almennt býr það fólk sem á styttri skólagöngu að baki og hefur lakari fjárhagslega afkomu við verri andlega og líkamlega heilsu en þau sem hafa meiri menntun og búa við betri efnahag. Þeir þættir hafa líka áhrif á lífshætti.

Að sögn Sigríðar Haralds- Elínardóttur, sviðsstjóra heilbrigðisupplýsingasviðs Landlæknis, er niðurstaðan áþekk því sem finna má í rannsókn Evrópuskrifstofu WHO og Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar.

Auk þessa greindu rannsakendur mun milli menntunar- og tekjuhópanna þegar kemur að mælingu á hamingju. Aukin menntun virðist ekki bæta afkomu kvenna jafn mikið og karla en fólk með grunnmenntun á erfiðara með að ná endum saman en það sem meira er menntað. 

Reykingar eru mun algengari í hópi minna menntaðra og fátækari en hinna, hið sama á við um offitu en grænmetisneysla eykst með hækkandi menntunarstigi og betri afkomu. Konur borða meira grænmeti en karlar.

Karlar drekka meira áfengi en neysla þess er algengari meðal meira menntaðs fólks. Ótti við glæpi í næsta nágrenni minnkar með aukinni menntun og vísbendingar eru um fylgni langtímaatvinnuleysis, almennrar afkomu og menntunar.

Munur á ferðamáta fólks er ekki jafnafgerandi og annarra þátta í rannsókninni. 

Kerfi samfélagsins þurfa að bregðast við

Í skýrslunni má finna skilaboð til stjórnvalda um viðbrögð þeirra til að draga úr ójöfnuði. Öll kerfi samfélagsins þurfi að koma að, ekki nægi að gera breytingar á heilbrigðiskerfinu einu. 

Skýrsluhöfundar benda á að svo auka megi jöfnuð þurfi að koma til skilningur á hvað valdi ójöfnuði. 

„Þetta er óþarfi og það er ódýrara fyrir samfélagið að breyta þessu,“ að sögn Sigríðar. „Öll kerfi þurfa að bera sameiginlega ábyrgð á að skapa okkur þegnunum heilsusamlegt umhverfi og það eru okkar félagslega og efnahagslega umhverfi, menningarlega, umhverfisþætti.“

Samvinnu sé þörf. „Það er ekki hægt að leysa þetta nema við gerum það saman og vinnum þvert á kerfi samfélagsins.“ Draga þurfi úr fátækt, bregðast þurfi við atvinnuleysi og styðja við foreldra ungra barna og við eldri borgara. Hluti af því sé að gera sálfræðiþjónustu aðgengilegri. 

„Að tryggja það að sjúkratryggingar nái til allra og þeirra heilsufarsvandamála 
sem við þurfum að láta ná til.“  Áríðandi sé að vinna skipulega að því að draga úr ójöfnuði og meta fyrir fram áhrif af þeim ákvörðunum sem teknar verða. 
„Eftir því sem heilsan er betri því minna álag er á heilbrigðisþjónustuna.“