Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Launamunur milli kynja áberandi í boltaíþróttum

Mynd: Mummi Lú / Mummi Lú

Launamunur milli kynja áberandi í boltaíþróttum

02.06.2021 - 17:47
Svo virðist sem talsverður launamunur sé milli karla og kvenna í íþróttum. Þetta sýna niðurstöður meistaraverkefnis Helenu Jónsdóttur í íþróttafræði.

Helena sem kynnti niðurstöðurnar í Háskólanum í Reykjavík í dag rannsakaði launamun karla og kvenna í efstu deildum í fótbolta, handbolta og körfubolta. „Niðurstöðurnar sýndu að karlar íþróttum eru að fá hærri laun heldur en konur. Þeir eru að fá yfirleitt 101 til 200 þúsund krónur á mánuði meðan konur í íþróttum eru að fá þúsund krónur upp í 50 þúsund [krónur á mánuði],“ segir Helena.

Þá skoðaði Helena einnig kynjamun í stjórnum íslenskra íþróttafélaga.
„Konur eru 48% af þeim sem sitja í stjórnum íþróttafélaga á Íslandi og síðan virðist vera að það eru karlar sem stjórna þessum íþróttafélögum, en af þessum 15 félögum sem tóku þátt, þá var bara ein kona formaður.“

En komu niðurstöðurnar Helenu á óvart?
„Það er auðvitað mikið rætt um það í samfélaginu að karlar í íþróttum eru að fá hærri laun en síðan hvað varðar setu í stjórnum þá var bara frábært að sjá að svona margar konur eru í stjórnum íþróttafélaga en það er leitt að sjá að aðeins ein kona er að stýra félagi,“ segir Helena.

Viðtalið við Helenu má sjá í spilaranum hér að ofan.