Í Suður-Þingeyjarsýslu kjósa íbúar Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar um sameiningu. Formlegur undirbúningur sameiningar hófst í júní 2019.
Sameinað sveitarfélag yrði landfræðilega stórt, ríflega 12.000 ferkílómetrar, en ekki ýkja fjölmennt, með ríflega 1.300 íbúa. Þorpin á Laugum og í Reykjahlíð eru stærst, en einnig eru nokkrir minni byggðakjarnar. Lagt er til að níu manna sveitarstjórn verði í sameinuðu sveitarfélagi, stjórnsýslunni verði skipt upp í þrjú svið og fimm fastanefndir verði starfandi.
Sameining verið til umræðu í langan tíma
Viðræður um sameiningu allra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu hafa staðið frá 2017 en formlegur undirbúningur hófst í október 2019. Þar kjósa íbúar Húnavatnshrepps, Blönduósbæjar, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar um sameiningu.
Tæplega 1.900 íbúar yrðu í þessu sameinaða sveitarfélagi sem næði yfir rúma 4.500 ferkílómetra. Blönduós og Skagaströnd eru stærstu þéttbýlisstaðir en einnig er byggðarkjarni á Húnavöllum. Lagt er til að níu fulltrúar verði í sveitarstjórn, stjórnsýslan skiptist í fimm aðalsvið og starfsstöðvar verði bæði á Blönduósi og Skagaströnd.
Kjördagur á laugardag, 5. júní
Það er kjördagur á laugardaginn kemur, 5. júní, þar sem kosið verður um þessar tvær sameiningratillögur. Þingeyingar kjósa í Skjólbrekku og Ljósvetningabúð og þar standa kjörfundir yfir frá kl. 10 til kl. 22. Kjörstaðir Húnvetninga eru á Skagaströnd, Blönduósi, í Skagabúð og á Húnavöllum. Á Skagaströnd og Blönduósi eru kjörfundir frá kl. 10 til kl. 22, á Húnavöllum er kjörfundur frá kl. 11 til kl. 19 og í Skagabúð frá kl. 12 til kl. 17.