Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kallar eftir aukinni samkeppni á lyfjamarkaði

02.06.2021 - 08:56
Úr umfjöllun Kveiks um lyfjaskil
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson
Minni hömlur á netverslun með lyf og auknar heimildir til sölu lausasölulyfja utan apóteka eru líkleg til að auka samkeppni og lækka verð til neytenda. Þetta kemur fram í áliti Samkeppniseftirlitsins sem sent hefur verið heilbrigðisráðherra.

Álitið er unnið upp úr skýrslu norrænu samkeppniseftirlitanna þar sem gerður er samanburður á lyfjaverslun á Norðurlöndunum. Þar kemur fram að mun strangari reglur gilda um lyfjaverslun á Íslandi en í Svíþjóð og Danmörku.

Hérlendis mega eingöngu þeir sem starfrækja lyfjaverslun selja lyf á netinu en í Svíþjóð og Danmörku er heimilt að reka netverslun með lyf án þess að lyfsöluleyfishafi reki lyfjaverslun. Í skýrslunni er rakið að í Svíþjóð hafi netverslanir með lyf veitt hefðbundnum lyfjaverslunum mikið samkeppnislegt aðhald. Verðsamkeppni þar sé mikil og aðgengi að lyfjum mun betra, einkum á svæðum þar sem langt er á milli lyfjaverslana.

Þá er bent á að á Íslandi séu afar takmarkaðar heimildir til að selja lausasölulyf utan apóteka. Í Svíþjóð eru hins vegar mun rýmri heimildir til að selja ólyfseðilskyld lyf utan apóteka. Það hefur leitt til lægra lyfjaverðs og betra aðgengis fyrir neytendur. 

Að mati Samkeppniseftirlitsins er tilefni til að stjórnvöld taki þessi atriði til skoðunar, með það að markmiði að auka samkeppni í lyfsölu á Íslandi.

Magnús Geir Eyjólfsson